Forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, sagði í ræðu sinni á Austurvelli í dag að 17. júní væri mikilvægur hluti þjóðmenningar okkar.
Hann gerði sjálfstæðið og fullveldið að umræðuefni í ræðu sinni í tengslum við Evrópusambandið. „Hugmyndin um fullveldi byggist á því að menn trúi því raunverulega að íslensku þjóðinni farnist best þegar hún ræður sér sjálf og hefur full yfirráð yfir auðlindum sínum og örlög sín í eigin höndum,“ sagði Sigmundur í ræðu sinni.
Þá sagði Sigmundur okkur aldrei mega missa þá sannfæringu að trúa því að Ísland ætti að vera sjálfstætt land. Hann sagði okkur einnig þurfa að virða afstöðu þeirra sem velta því fyrir sér hvort aðild að Evrópusambandinu myndi styrkja stöðu Íslands og að við gætum verið sammála um að nú þyrfti sambandið að sanna sig gagnvart Íslandi.
„ESB tók þátt í tilraunum til að þvinga Íslendinga til að taka á sig gríðarlegar efnahagslegar byrðar í andstöðu við lög og braut svo blað í sögu sinni til að taka þátt í málaferlum gegn Íslandi. Nú þarf ESB að sýna að það sé samband sem byggi á lögum og jafnræði en ekki valdi í krafti stærðar og hagsmuna hinna stóru.“
Sigmundur Davíð vitnaði til ræðu forseta Íslands, Ólafs Ragnars Grímssonar, við setningu þingsins fyrr í þessum mánuði þar sem hann ræddi stöðu Íslands gegn Evrópusambandinu.
„Það hefðu líklega fáir trúað því árið 1944, eða 1994, að síðar yrði leitað til sérfræðinga til að spyrja hvort það heyrði undir viðeigandi umræðuefni fyrir forseta Íslands að tjá sig um fullveldi landsins. Sem betur fer var ekkert út á mat sérfræðinganna að setja en það kom þó ekki í veg fyrir að þeir sem eru viðkvæmir fyrir umræðuefninu túlkuðu það áfram á sinn hátt.“
Sigmundur gerði ICESAVE-deiluna að umræðuefni og sagði Íslendinga hafa tekið afdráttarlaust þá afstöðu að ekki ætti að leggja skuldir gjaldþrota banka á herðar almenningi. Íslendingar hefðu ekki látið ógnanir úr ýmsum áttum slá sig út af laginu. Þá sagði Sigmund fólk víða um Evrópu líta á Ísland sem fyrirmynd í baráttunni við afleiðingar efnahagsþrenginganna sem margar Evrópuþjóðir takast nú á við.
„Íslendingar, afkomendur þessara víkinga, hafa löngum verið sjálfstæðir í hugsun og þolað illa yfirvald, hvað þá kúgun. Það sýndi sig vel í ICESAVE-deilunni þar sem þjóðin felldi samkomulag sem hún taldi ósanngjarnt. Alþjóðlegur dómstóll staðfesti síðan þessa niðurstöðu sem sýndi að réttlætistilfinning þjóðarinnar var góður vegvísir. “
Í ræðu sinni kom Sigmund Davíð inn á aðgerðir fyrir íslensk heimili. Hann sagði að við myndum ekki láta alþjóðastofnun segja okkur að ekki væri hægt að gera meira fyrir íslensk heimili um leið og við værum minnt á mikilvægi þess að ljúka uppgjöri efnahagshrunsins.
Þá nefndi hann mikilvægi tungumálsins, sem væri okkar varanlegi efniviður sem geymdi sjóð minninga. „Íslensk tunga og orðsins list er líklega mikilvægasta arfleifð okkar. Þess vegna ber okkur skylda til að styðja við íslenskuna,“ sagði Sigmundur Davíð.
Sigmundur Davíð ítrekaði einnig mikilvægi þess að við byðum ferðamenn velkomna til landsins og tækjum þeim opnum örmum. „Ekki einvörðungu vegna þess að þeir færa okkur gjaldeyristekjur, heldur vegna þess að gestrisni er snar þáttur í þjóðmenningu okkar. Ferðalangar sem snúa heim ánægðir eru einnig besta landkynningin.“