Lenti í íslenskum hálendisrudda

Ómar Ragnarsson á Akureyri.
Ómar Ragnarsson á Akureyri. mbl.is

„Hreyfillinn drap á sér og fór ekki í gang aftur. Ég skil það hreinlega ekki, það var nóg bensín og rafmagn á henni,“ segir Ómar Ragnarsson fréttamaður, í samtali við mbl.is en hann þurfti að nauðlenda í kvöld við Sultartangalón.

Mbl.is greindi frá því fyrr í kvöld að lítil flugvél af gerðinni Cessna, TF-TAL, hafi þurft að nauðlenda vegna vélavandræða. Atvikið átti sér stað um klukkan 17. 

Ómar segir aðstæður hafa verið erfiðar til nauðlendingar, en þar sem hann hafi verið í dálítilli hæð hafi hann getað fundið örlítið hentugri stað til lendingar.

„Ég flaug meðfram fjalli til að fá svolítið uppstreymi og leitaði að stað, en svo lenti ég bara í íslenskum hálendisrudda, mold, grjóti og möl.“  

Við nauðlendinguna brotnaði nefhjólið af og flugvélin hafnaði á hvolfi. Ómar slapp þó ómeiddur frá byltunni. „Ekki einu sinni gleraugun brotnuðu, ég er alveg heill. En það er auðvitað leiðinlegt að þetta skuli gerast á vél besta vinar míns,“ segir Ómar.  

Staðurinn sem Ómar nauðlenti á er töluvert frá byggð, en fyrstir á vettvang voru björgunarmenn sem starfandi eru á vegum Ístaks á virkjunarsvæðinu við Búðarháls. Ómar komst til byggða um sex klukkustundum eftir nauðlendinguna.

TF-TAL hafnaði á hvolfi.
TF-TAL hafnaði á hvolfi. Ljósmynd/Ófeigur Ö. Ófeigsson.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert