Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði á Alþingi í dag, að samtals væri uppsafnaður halli á ríkissjóði um 400 milljarðar frá árinu 2009. Enn virtist sú staða blasa við, að fjárlög fyrir yfirstandandi ár hefðu verið afgreidd með of mikilli bjartsýni.
Þetta kom fram í sérstakri umræðu um áherslur ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum. Bjarni sagðist ekki geta svarað þeirri spurningu hve mikill halli yrði á fjárlögum fyrir árið 2014 öðruvísi en svo, að allir myndu leggjast á eitt við að lágmarka þann halla og reyna að ná jöfnuði. En sá vandi yrði ekki leystur með stöðugt vaxandi skattbyrði.
Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG, fór fram á umræðuna og sagði mikilvægt að skýrari mynd af stefnu ríkisstjórnarinnar í þessum efnum lægi fyrir. Hann sagði, að auðvitað væru alltaf frávik frá forsendum fjárlaga en fátt benti til annars en að forsendur fjárlaganna, sem samþykkt voru í desember sl., gengju eftir í aðalatriðum.
Hann benti á að nokkrar forsendur hefðu þróast til betri vegar, eins og minnkandi atvinnuleysi, en aðrar á verri veg, svo sem að útlit væri fyrir minni hagvöxt á þessu ári en upphaflega var miðað við.
Katrín Júlíusdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að allt benti til þess, að ríkisstjórnin ætlaði sér ekki að byrja að greiða niður skuldir á næsta ári. Sagði hún nauðsynlegt að skýr svör fengjust um það hvenær ætti að byrja að greiða niður skuldir ríkisins.
Katrín sagði, að árangurinn í ríkisfjármálum hefði verið góður á síðasta kjörtímabili en núverandi óvissa væri óþolandi. Ýmislegt benti til þess, að ríkisstjórnin væri með yfirlýsingum sínum um yfirvofandi fjárlagagat að undirbúa fjármálamarkaðina undir að veiðigjaldið verði lækkað og samfélagið undir að auðlegðarskattur og önnur slík gjöld verði afnumin.