Ekkert fær stöðvað sannleikann

Bandaríski uppljóstrarinn, Edward Snowden, segir að bandaríska ríkisstjórnin hafi komið í veg fyrir að mögulegt sé að hann fái réttláta meðferð fyrir dómstólum. Í netspjalli við lesendur breska fjölmiðilsins Guardian segir Snowden að leiðtogar Bandaríkjanna geti ekki komið í veg fyrir birtingu upplýsinganna með því að fangelsa hann eða myrða. Ekkert fái stöðvað sannleikann.

Snowden, fyrrverandi starfsmaður bandarísku leyniþjónustunnar CIA, kveðst hafa ákveðið að leka upplýsingum um umfangsmikið eftirlit Þjóðaröryggisstofnunar Bandaríkjanna (NSA) með síma- og netnotkun til að „vernda grundvallarréttindi og frelsi fólks úti um allan heim“.

Nýleg könnun bendir til þess að Bandaríkjamenn séu klofnir í afstöðunni til þess hvort rétt hafi verið að afhjúpa eftirlit NSA með síma- og netnotkun milljóna manna. Yfirmaður stofnunarinnar, Keith Alexander, hefur varið eftirlitið og fullyrt að það hafi hjálpað bandarískum yfirvöldum að hindra tugi árása hryðjuverkamanna.

Snowden ýjar að því í netspjallinu á vef Guardian að birta frekari upplýsingar um hleranir NSA og hann segir að það skipti engu hvort hann þegi um þær, upplýsingarnar verði birtar hvort sem er.

Snowden er í felum í Hong Kong en í síðustu viku sagðist hann telja mestar líkur á því að hann fengi hæli á Íslandi, en að sögn Kristínar Völundardóttur, forstjóra Útlendingastofnunar, er reglan sú að til að geta sótt um hæli þurfi menn að vera staddir hér á landi og sækja um í eigin persónu.

Í grein eftir Kristin Hrafnsson, talsmann Wikileaks, í Fréttablaðinu í dag kemur fram að Snowden hafi aðfaranótt 12. júní falið honum að bera íslenskum stjórnvöldum þau boð að hann sækti eftir pólitísku hæli og óskaði eftir aðstoð þeirra við umsóknina. Jafnframt að þau könnuðu möguleikann á því að veita honum ríkisborgararétt.

„Sama dag óskaði ég eftir fundi með Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra og Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra til þess að bera upp erindið," skrifar Kristinn. „Hvorugt sá sér fært að hitta mig, þótt þeim væri ljóst hvað í því fólst. Engu að síður kom ég því til leiðar að bæði fengju til sín nægjanlegar upplýsingar sem vörðuðu þetta ákall um aðstoð."

Kristinn segist enn ekki hafa náð tali af ráðherrunum tveimur og því enn ekki fengið milliliðalaust svar við erindinu, sem í eðli sínu sé pólitískt. Hjá ráðuneytunum hafi hann fengið svör um tæknilega vankanta á hælisumsókn ef umsækjandinn sé ekki staddur á Íslandi, samkvæmt því sem fram kemur í Fréttablaðinu í dag.

<a href="http://www.guardian.co.uk/world/2013/jun/17/edward-snowden-us-fair-trial" target="_blank">Sjá nánar á Guardian</a>

AFP
Edward Snowden
Edward Snowden Skjáskot af Guardian
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert