Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagði í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag að fyrst og fremst þyrfti ný störf til að skapa hagvöxt til að loka fjárlagagatinu. Þetta sagði Bjarni við fyrirspurn Árna Páls Árnasonar, formanns Samfylkingarinnar. Árni Páll spurði hvaða fyrirmæli ráðherrar hefðu fengið um niðurskurð í sínum ráðuneytum og hve mikið eigi að skera niður, t.d. í velferðarkerfinu og löggæslunni, til að minnka fjárlagagatið.
Fjármála- og efnahagsráðherra sagði að fjárlagafrumvörp hefðu ekki staðist ár eftir ár og munaði þar um hundruð milljarða er allt er tekið frá 2009. Fyrirmælin sem ráðherrar og ráðuneyti hafi fengið væru að halda áfram að gæta ýtrasta aðhalds í rekstrinum og gerð væri hagræðiskrafa fyrir allan almennan rekstur. Þá þyrftu menn að þola að rætt væri um stöðuna eins og hún er, enda stefni í að það verði farið mjög hressilega framúr því sem menn stefndu að í fyrra, m.a. vegna þess að forsendur gengu ekki eftir um hagvöxt. „Þessi ríkisstjórn ætlar að leggja áherslu á hagvöxt,“ sagði Bjarni.
Þá beindi Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður VG, fyrirspurn að Eygló Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra. Hún innti eftir því hvar Framsóknarflokkurinn ætli að draga úr stuðningi í velferðarkerfinu til bóta, bæði atvinnuleysis- og örorkubóta. Vitnaði hún í orð Vigdísar Hauksdóttur, formanns fjárlaganefndar, um að of margir væru og hefðu verið á bótum í tíð síðustu ríkistjórnar.
Eygló Harðardóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, svaraði Lilju Rafney með því að það sem einkenndi íslenskt samfélag væri áhersla á mikilvægi velferðar, hvaða flokkum sem við tilheyrðum. Hún sagði að við myndum líklegast aldrei heyra velferðarráðherra segja að það væri nægur peningur í það sem snýr að velferðinni. Eygló sagðist trúa því að við gætum aukið hagvöxt með því að byggja upp hagstæðara umhverfi fyrir atvinnulífið. „Á því grundvallast velferðin,“sagði Eygló og ítrekaði þar með stefnu ríkistjórnarinnar um aukinn hagvöxt.