Vilja efla heilbrigðis-, velferðar- og menntamál

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, er flutningsmaður tillögunnar ásamt öðrum í …
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, er flutningsmaður tillögunnar ásamt öðrum í þingflokki VG. mbl.is/Ómar

Þingflokkur Vinstri grænna hefur lagt fram tillögu til þingsályktunar á Alþingi um þriggja ára áætlun um eflingu heilbrigðisþjónustu, menntakerfis og velferðarþjónustu út frá endurskoðaðri ríkisfjármálaáætlun. Lagt er til að átlunin verði lögð fyrir þingið eigi síðar en 1. október næstkomandi og höfð til hliðsjónar við vinnslu fjárlaga á komandi árum.

Lagt er til að Alþingi feli ríkisstjórninni að skipa starfshóp með fulltrúum allra stjórnmálaflokka sem fái það hlutverk að gera þriggja ára áætlun um eflingu heilbrigðisþjónustu, menntakerfis og velferðarþjónustu út frá endurskoðaðri ríkisfjármálaáætlun, að því er segir í tilkynningu.

Bent er á í greinargerð með tillögunni, að þar eð ríkisstjórnin taki við góðu búi með tilliti til ríkisfjármála hafi skapast færi til sóknar í uppbyggingu almannaþjónustu á borð við þá sem getið sé í texta þingsályktunartillögunnar. Er það einnig vísað til erlendrar reynslu sem fengist hafi af viðbrögðum við niðursveiflu í hagkerfum þar sem það hafi sýnt sig að mikill niðurskurður á sviði mennta- og velferðarmála hafi valdið ýmsum samfélagsmeinum og einnig átt sinn þátt í að dýpka efnahagskreppuna.

Í greinargerðinni eru nefnd ýmis opinber verkefni í velferðarmálum sem þingflokkur VG telur brýnt að sinnt verði á komandi tíð í því skyni að efla velferð Íslendinga, styrkja innviði samfélagsins og sporna gegn áhrifum efnahagskreppunnar.

Þingsályktunartillaga VG

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka