Forsætisráðherra spurður út í Snowden

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sést hér ræða við blaðamenn ásamt …
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sést hér ræða við blaðamenn ásamt Fredrik Reinfeldt, forsætisráðherra Svíþjóðar, í Stokkhólmi í dag. AFP

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir í samtali við AFP-fréttastofuna að aðstoðarmaður bandaríska uppljóstrarans Edwards Snowden hafi átt í óformlegum viðræðum við íslenska embættismenn. Líkt og fram hefur komið hefur Snowden lýst áhuga á að sækja eftir pólitísku hæli á Íslandi.

„Fulltrúi hans hefur, samkvæmt minni vitneskju [...] átt í óformlegum viðræðum við nokkra starfsmenn í nokkrum ráðuneytum, en engar formlega viðræður,“ sagði Sigmundur Davíð sem er nú staddur í opinberri heimsókn í Stokkhólmi í Svíþjóð.

Hann segir að Snowden, sem hefur verið í felum í Hong Kong, verði að vera staddur á Íslandi til að geta sótt um pólitískt hæli.

„Þar sem hann er ekki staddur á landinu þá er það ekki mitt að tjá mig um málið að svo komnu máli,“ bætti Sigmundur Davíð við.

Snowden, sem er 29 ára fyrrverandi starfsmaður bandarísku leyniþjónustunnar CIA, kveðst hafa ákveðið að leka upplýsingum um umfangsmikið eftirlit Þjóðaröryggisstofnunar Bandaríkjanna (NSA) með síma- og netnotkun til að „vernda grundvallarréttindi og frelsi fólks úti um allan heim“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert