Gjaldtaka við komu og brottför

„Þeir staðir sem nú þegar liggja undir gríðarlegu álagi geta …
„Þeir staðir sem nú þegar liggja undir gríðarlegu álagi geta ekki beðið eftir framlagi úr miðlægum sjóði," segir forseti Ferðafélagsins. Morgunblaðið/RAX

„Með breiðum flötum gjaldstofni er verið að segja að Ísland sé land náttúrufegurðar og náttúruperlna. Allir sem koma til og frá landinu eiga að varðveita það og njóta þess,“ segir Ólafur Örn Haraldsson, forseti Ferðafélags Íslands, en félagið samþykkti í gær bókun þar sem afstaða er tekin til gjaldtöku á vinsæla ferðamannastaði.

„Viðhorf stjórnar Ferðafélagsins er að gjaldtöku sé best komið með tvíþættum hætti. Annars vegar að fjár verði aflað í miðlægan sjóð sem hafi það hlutverk að byggja upp og styrkja ferðamannastaði vítt og breitt um landið. Hins vegar eru aðrir staðir á landinu sem þegar eru undir gríðarlegu álagi og geta því ekki beðið eftir framlagi úr slíkum sjóði. Þar þarf að taka gjald fyrir veitta þjónustu.“

Flatur gjaldstofn

Fjármagns í sjóðinn yrði aflað samkvæmt breiðum flötum gjaldstofni sem allir inni jafnt af hendi við komu til landsins og við brottför. „Það eru þrjár leiðir til og frá landinu; flug, Norræna og skemmtiferðaskipin. Með því að leggja fast gjald á þessa þætti yrðu engin undanskot möguleg og gjaldið yrði því lágt fyrir alla.“ Svo dæmi sé tekið gætu tekjur sjóðsins numið 500 milljónum króna á ári ef gjaldið væri 500 krónur. Ef það væri 1.000 krónur yrði fjárhæðin 1 milljarður króna, en þetta er miðað við þann fjölda sem að meðaltali kemur til og fer frá landinu á hverju ári.

Jafnræði í gjaldtöku

Ólafur segir gistináttaskattinn ekki hafa gengið sem skyldi og einungis valdið ferðaþjónustunni vandræðum. Gjaldskráin hafi verið ruglingsleg og ekkert jafnræði vera í henni fólgið þegar hótel-, bænda- eða skálagisting séu borin saman.

Hann telur jafnræði hins vegar fólgið í þessu flata gjaldi. Erfitt geti annars verið að meta hverjir eigi að greiða og mörg álitaefni geti vaknað í því sambandi, til dæmis hvenær maður teljist inni á hálendinu eða að landsbyggðin gæti endað með of þungan bagga og þá geti verið erfitt að framfylgja gjaldtöku á einstaka svæðum.

Sumir staðir geta ekki beðið

„Þeir staðir sem nú þegar liggja undir gríðarlegu álagi geta ekki beðið eftir framlagi úr miðlægum sjóði. Fjárþörf þeirra er mun meiri og þurfa því skjóta lausn.“ Nefnir Ólafur þá helst Þingvelli, Gullfoss, Geysi, Landmannalaugar, Dimmuborgir og Laugaveg. „Þessir staðir eiga að geta tekið gjald fyrir sína veittu þjónustu.“ 

Þess konar fyrirkomulag segir Ólafur að geti verið vandkvæðum bundið að framfylgja á sumum stöðum sökum landfræðilegrar legu. Á öðrum stöðum ætti hins vegar auðvelt að taka sérstakt umhverfisgjald. Vonast hann til að hægt verði að hefja gjaldtöku á næsta ári.

Ólafur Örn Haraldsson, forseti Ferðafélags Íslands.
Ólafur Örn Haraldsson, forseti Ferðafélags Íslands. Sverrir Vilhelmsson
Farþegar með skemmtiferðaskipum geta greitt umhverfisgjald í gegnum hafnargjöld.
Farþegar með skemmtiferðaskipum geta greitt umhverfisgjald í gegnum hafnargjöld. Júlíus Sigurjónsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert