„Munum ekki láta staðar numið“

Samhljómur var meðal þeirra þingmanna sem tóku til máls í sérstakri umræðu um jafnlaunaátak og kjarasamninga á Alþingi í dag. Rauði þráðurinn í umræðunni var kynbundinn launamunur og voru þingmenn allir á því máli að betur þurfi að gera til þess að jafnrétti verði náð.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, hóf umræðuna en áður nefndi Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, að hann hyggist kalla saman fulltrúa sem flestra samtaka íslenskra kvenna, svo og stofnana sem fást við jafnréttismál kvenna og karla á sérstakan fund fyrir upphaf haustfundar Alþingis.

Eitt af verkefnum þess fundar verður að kjósa fimm manna framkvæmdanefnd sem mótar endanlegar tillögur og annast frekari undirbúning þess hvernig minnst verður 100 ára afmælis kosningarréttar og kjörgengis íslenskra kvenna 19. júní 2015. Nefndinni verður meðal annars gert að færa fram tillögur um hvernig auka megi jafnréttis- og lýðræðisvitund og blása til nýrrar sóknar í jafnréttis- og mannréttindamálum.

Töluvert enn í land

Í umræðunni sjálfri sagði Sigríður Ingibjörg að það væri afar þreytandi fyrir konur að berjast ár eftir ár eftir sjálfsögðu jafnrétti. Hún sagði að þessu ranglæti sem kynbundinn launamunur er verði að linna og ríkisstjórn eigi að taka á vandanum af krafti. Hún spurði Bjarna Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, um vinnu við jafnlaunaátak sem fyrri ríkisstjórn samþykkti í janúar síðastliðnum og sagðist vona að framtíðarlausn verði fundin í næstu kjarasamningum.

Í svari sínu sagði Bjarni að það hefði verið gleðilegt að geta fullyrt að fullkomnu jafnrétti væri náð. Það sé hins vegar ekki veruleikinn og töluvert sé enn í land. Til dæmis séu mun færri konur í stjórnendastöðum fyrirtækja og á Alþingi.  „En við munum ekki láta staðar numið fyrr en óútskýrðum launamun verður útrýmt,“ sagði Bjarni. 

Hann sagði að innan ráðuneytis síns væri unnið að greiningu og mati á þeim aðferðum sem helst hefur verið beitt þegar kemur að launamun kynjanna. Þeirri vinnu miði ágætlega en ekki sé tímabært að setja fram tillögur á þessu stigi málsins. Þá sé unnið að innleiðingu jafnlaunastaðals og miði þeirri vinnu vel.

Hvað varðar komandi kjarasamninga sagði Bjarni að byggð verði á því að laun verði byggð á málefnalegum forsendum þar sem kynferði hafi ekki áhrif.

Ótrúlegt að enn þurfi að berjast

Meðal þeirra sem tóku þátt í umræðunni voru Sigrún Magnúsdóttir, þingmaður Framsóknarflokks, og Oddný G. Harðdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar. Sigrún spurði hvernig stæði á því að það þurfi enn að ræða þetta mál og hvers vegna launajafnrétti ríki ekki. Oddný sagði ótrúlegt að konur þyrftu enn að berjast fyrir launajafnrétti og að það þurfi að setja í gang sérstakt átak fyrir því að leiðrétta muninn.

Pétur H. Blöndal gekk enn lengra og sagði hreinlega ekkert stefna í að jafnrétti væri að nást heldur sé misréttið að aukast. „Ég tel að það séu ekki bara launin sem við þurfum að horfa til heldur einnig framgang kvenna innan fyrirtækja, hvernig þær ná hærri stöðum. Það er ekki mælt.“ Hann sagði gullið tækifæri til að taka á þessum málum í kjarasamningunum og bæta stöðu kvenna.

Tvö ár séu viðmiðið

Árni Þór Sigurðsson, þingmaður Vinstri grænna, sagði ljóst að viðhorfsbreytingu þurfi í samfélaginu. Rannsóknir sýni að ungir drengir hafi neikvæðari sýn á jafnrétti kynjanna en þeir sem eru heldur eldri og þetta sé viðfangsefni sem sé mikilvægt að vinna á. 

Þá benti Árni á að eftir tvö ár verði hundrað ár síðan konur fengu kosningarétt og spurði hvort það sé ekki tilvalið viðmið til að taka á því samfélagsmeini sem kynbundinn launamunur sé. Hann hvatti þingmenn, sama hvar í stjórnmálum þeir standa, til að taka saman höndum og ráða bót á þessu meini í eitt skipti fyrir öll.

Óttarr Proppé, þingmaður Bjartrar framtíðar, sagði það ekki afsökun að hlutirnir gætu verið verri. Það sé ekki ástæða til að vera sátt við stöðuna og áfram þurfi að berjast. Hann sagði augljóst að hann sé miðaldra karlmaður og offramboð sé af sjónarmiðum þeirra. Hann leggi því mikið upp úr því að rækta með sér þau viðhorf sem séu honum ekki náttúruleg. Það sagðist hann telja að gæti verið mikilvægt í samfélaginu.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, á Alþingi.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, á Alþingi. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Þingmennirnir Óttar Proppé og Jón Þór Ólafsson á Alþingi.
Þingmennirnir Óttar Proppé og Jón Þór Ólafsson á Alþingi. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert