Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, gerði forsætisráðherra Svíþjóðar, Frederik Reinfeldt, grein fyrir áherslum nýrrar ríkisstjórnar varðandi efnahagsmál, m.a. einföldun skattkerfis og úrræða fyrir skuldsett heimili á fundi þeirra í Stokkhólmi. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá forsætisráðuneytinu.
Á fundinum ræddu forsætisráðherrarnir um traust og gott samstarf Íslands og Svíþjóðar, bæði tvíhliða og á alþjóðavettvangi. Einnig var rætt um stöðu efnahagsmála í Evrópu og stöðu evrusvæðisins, en Svíar standa utan evrusamstarfsins, þó sænska krónan sé tengd gengi evrunnar. Jafnframt var rætt um áherslur á alþjóðavettvangi, m.a. hlé á viðræðum við Evrópusambandið, aukna áherslu á Norðurslóðamál, norræna samvinnu og vest-norrænt samstarf.
Einnig ræddu forsætisráðherrarnir um menntamál og þær breytingar sem átt hafa sér stað í Svíþjóð í þeim málaflokki á síðustu árum. Svíar hafa á undanförnum árum gert breytingar á sínu skattkerfi og nefndi forsætisráðherra Svíþjóðar að lækkaðir hefðu verið skattar, meðal annars á veitingarekstur, sem hefði örvað ferðamennsku og eflt þann þjónustugeira.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, sagði mikilvægt að eiga náið og gott samráð við allar Norðurlandaþjóðirnar og vinnuheimsókn hans væri þáttur í því að treysta það samstarf. „Þetta var mjög gagnlegur fundur sem við áttum. Margar af áherslum Svía, til dæmis til að örva atvinnulíf og leita sjálfbærra úrræða fyrir ungt fólk sem glímir við atvinnuleysi, eru mjög áhugaverðar.“
Svíþjóð hefur gegnt formennsku í Norðurskautsráðinu undanfarið og gegnir nú formennsku í norrænu ráðherranefndinni og tekur Ísland við því hlutverki við lok ársins. Svíar hafa lagt áherslu á málefni ungs fólks og atvinnusköpun í sinni formennskutíð og var sérstök ráðstefna haldin um miðjan maí um það efni, þar sem kynntur var fjöldi verkefna sem Norðurlöndin standa fyrir, til að stuðla að því að draga úr atvinnuleysi ungs fólks.