Gengu út frá sekt við rannsókn

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson
Vilhjálmur H. Vilhjálmsson mbl.is/Golli

„Lögreglan gekk út frá því allan tímann við rannsóknina að þeir væru sekir og hún væri að segja satt. Og af því að skjólstæðingur minn heitir þessu nafni og er með þessa sögu var ekki hirt um að rannsaka það sem hann benti á,“ segir Vilhjálmur H. Vilhjálmsson um sýknudóm sem féll í Hæstarétti í gær.

Í málinu voru tveir karlmenn ákærðir fyrir að nauðga 19 ára konu. Þeir voru sakfelldir í Héraðsdómi Reykjavíkur og hlutu fimm ára og fjögurra og hálfs árs fangelsi. Hæstiréttur sneri niðurstöðunni hins vegar við og sýknaði mennina.

Réttargæslumaður konunnar sagðist afar undrandi á niðurstöðunni í samtali við mbl.is í gær og taldi það bera keim af gamaldags viðhorfum hversu mikla áherslu Hæstiréttur lagði á aðdraganda kynmakanna, s.s. að konan hefði farið upp í bíl með mönnunum og misræmi í frásögn hennar um það atriði hjá lögreglu og fyrir dómi.

Vilhjálmur bendir hins vegar á að konan hafi verið margsaga um það atriði - eins og fleiri - og það sé ekki minniháttar atriði hvort hún hafi verið svipt frelsi sínu, eins og hún hélt fram í fyrstu, eða hvort hún hafi sest upp í bílinn sjálfviljug.

Hann segir að mennirnir hafi frá fyrstu skýrslutöku sagt skilmerkilega frá atriðum málsins. „Þeir viðurkenndu strax að hún hefði beygt af og þá hefðu þeir hætt. Það er bara þannig og ég held að þá fyrst hafi það komið í ljós að hún hafði ekki neinn sérstakan áhuga á þessu. Þá hættu þeir.“

Jafnframt bendir hann á að konan hafi sagt að haldið hafi verið á henni frá bílnum og inn í íbúð annars mannsins og hún hárreytt mjög harkalega. Þessu hafi hún einnig breytt síðar, enda hafi til dæmis engir áverkar verið á henni.

Sagði satt og rétt frá allan tímann

Skjólstæðingur Vilhjálms, Stefán Sívarsson, á að baki langan sakarferil og hann telur að það hafi skipt máli við rannsóknina. „Það stóð ekki steinn yfir steini í sögu hennar og það var auðvitað lögreglunnar að ganga á eftir henni með það. Á móti kemur að minn maður sagði satt og rétt frá öllu allan tímann. Það kom í ljós þegar farið er þrýsta á lögregluna um að rannsaka hlutina.“

Eins og greint var frá á mbl.is í dag hyggst lögregla endurskoða vinnubrögð sín í kjölfar dómsins en í honum segir að annmarkar hafi verið á rannsókn málsins hjá lögreglu sem ekki væri unnt að bæta úr nema að hluta.

Réttargæslumaður konunnar sagði að aðalatriðið í málinu hafi verið hvort mennirnir hafi mátt gera sér grein fyrir því að konan var ekki samþykk kynmökunum. Konan var 19 ára gömul, smávaxin og grönn en mennirnir báðir vöðvastæltir, um 90 kg að þyngd og hávaxnir. Konan sagðist ekki hafa getað veitt þeim mótspyrnu.

Vilhjálmur segir að svona sé ekki hægt að nálgast hlutina. „Er það bara þannig að ef maður sem er 90 kg hefur kynferðismök við konu sem er 50 kg þá sé hann sjálfkrafa nauðgari? Þarna stóðu orð á móti orði og ekkert í gögnum málsins benti til nauðgunar. Ég segi það eins og er að ég er fullviss um sakleysi skjólstæðings míns í þessu máli.“

Sýknaðir af ákæru um nauðgun í Hæstarétti

Keimur af gamaldags viðhorfum

Lögreglan endurskoðar vinnubrögð

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert