Samkvæmt nýju yfirliti um framleiðslu og sölu á mjólkurafurðum hafa nú orðið þau tímamót í íslenskri mjólkurframleiðslu að sala á fitugrunni er orðin meiri en sala á próteingrunni, að því er fram kemur í frétt á vef Landssambands kúabænda. Sú hefur ekki verið raunin í áratugi, a.m.k. síðan núverandi aðferðir við útreikning á sölu mjólkurafurða voru teknar upp fyrir 20 árum.
Þá hefur það einnig gerst í fyrsta skipti síðan 1980 að sala á smjöri er meiri en 1.000 tonn á einu ári.
Á tímabilinu júní 2012 til maí 2013 var sala á fitugrunni 116,3 milljónir lítra en sala á próteini losar 116 milljónir lítra. Innvigtun mjólkur á þessu tímabili var 123,8 milljónir lítra. Greiðslumark yfirstandandi árs er 116,5 milljónir lítra.
Að óbreyttu stefnir í að greiðslumark ársins 2014 verði miðað við sölu á fitugrunni. Í því fælust einnig talsverð tímamót, segir í frétt sambandsins.