„Vítahringur þöggunar, fordóma og ofbeldis“

AFP

„Viðhorf samfélagsins eru það neikvæð að fólk veigrar sér mjög við því að taka fyrstu skrefin út úr skápnum. Og á meðan enginn tekur þessi skref í átt til aukins sýnileika er lítil von til þess að viðhorfin breytist. Í þessari pattstöðu er nánast ómögulegt að vinna eitthvert grasrótarstarf og koma upp lífvænlegu samfélagi hinsegin fólks. Hinsegin fólk í Serbíu sárvantar bandamenn til að hjálpa til við að rjúfa þennan vítahring þöggunar, fordóma og ofbeldis.“

Þetta segir Svandís Anna Sigurðardóttir, ritari Samtakanna '78, en fulltrúar frá samtökunum, Q - félagi hinsegin stúdenta, Íþróttafélaginu Styrmi og Háskóla Íslands hafa undanfarna þrjá daga tekið þátt í ráðstefnu um stöðu hinsegin fólks í umsóknarríkjum og væntanlegum umsóknarríkjum um inngöngu í Evrópusambandið. Ráðstefnan er haldin í Belgrad í Serbíu á vegum ESB í samvinnu við ILGA Europe - Evrópusamtök hinsegin fólks og mannréttindaskrifstofu Serbíu.

„Slæm staða transkvenna og misræmi milli löggjafar og almenningsálits Meðal þess sem rætt hefur verið um á ráðstefnunni eru mótmælin sem nú standa sem hæst í Tyrklandi en mikil óvissa ríkir til dæmis um það hvort hægt verði að halda Gay Pride á Taksim torgi í lok mánaðarins. Eins kom fram í máli tyrknesku fulltrúanna að staða transkvenna í landinu sé sérstaklega slæm en þær búi almennt við mikla þöggun og lifi í stöðugum ótta um að verða fyrir lífshættulegu ofbeldi,“ segir í fréttatilkynningu frá Samtökunum 78.

Ennfremur hefur verið rætt um tengsl löggjafar og viðhorfa almennings til hinsegin fólks en talsverður munur er á löndunum í þeim efnum samkvæmt tilkynningunni. Þannig sé löggjöfin í ríkjum á vestanverðum Balkanskaga nokkrum skrefum á undan almenningsálitinu sem sé á tíðum mjög neikvætt. „Vonir um aðild að Evrópusambandinu spila þarna inn í en mörg ríkjanna hafa bætt löggjöf sína í aðdraganda aðildar. Þannig hafa Albanir nýlega samþykkt stefnu gegn hatursorðræðu og -glæpum. Stefnan þykir framsækin en hún tekur til að mynda betur á vandamálinu en íslensk löggjöf gerir. Staða hinsegin fólks er að þessu leytinu ólík því sem Íslendingar eiga að venjast enda hefur almenningsálitið hérlendis oftast verið á undan löggjöfinni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka