Boðskortið kom verulega á óvart

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar.
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar. mbl.is/Kristinn

Landsvirkjun fór fram á að fyrirhugaðri undirritun friðlýsingarskilmála Þjórsárvera yrði frestað í ljósi verulegra annmarka á málsmeðferð. Ef málinu yrði ekki frestað og meðferð þess og afgreiðsla endurskoðuð áskildi fyrirtækið sér allan rétt til að láta reyna á ákvarðanir sem teknar væru með kæru á stjórnsýslustigi og/eða fyrir dómstólum. Landsvirkjun leggst gegn friðlýsingunni.

Þetta kemur fram í bréfi sem Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, sendi Sigurði Inga Jóhannssyni umhverfisráðherra í gær vegna málsins. Líkt og fram hefur komið ákvað Sigurður Ingi að fresta undirrituninni.

Í bréfinu segir Hörður, að boðskort vegna fyrirhugaðrar undirritunar friðlýsingarskilmála Þjórsárvera, sem átti að fara fram í dag, hafi komið Landsvirkjun verulega á óvart, enda hafi fyrirtækið engar upplýsingar fengið um að til stæði að undirrita friðlýsingarskilmálana.

Þá gerir Landsvirkjun athugasemdir við undirbúning og fyrirætlun um undirritun skilmálanna. „Dregur Landsvirkjun mjög í efa að það stjórnsýsluferli sem málið hefur verið í af hálfu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins svo og Umhverfisstofnunar standist gildandi lög, einkum gildandi náttúruverndarlög nr. 44/1999, lög um verndar- og orkunýtingaráætlun nr. 48/2011 og meginreglur stjórnsýslulaga nr. 37/1993,“ segir í bréfi Landsvirkjunar.

Landsvirkjun ekki kynnt frekari framvinda málsins

Þar kemur jafnframt fram, að Umhverfisstofnun hafi kynnt Landsvirkjun fyrirhugaða friðlýsingu með bréfi sem barst 13. mars og var Landsvirkjun gefinn kostur á að koma með athugasemdir. Það gerði fyrirtækið með bréfi sem var sent 8. apríl. Þar voru gerðar ýmsar athugasemdir og lagst gegn fyrirhugaðri friðlýsingu, en í umsögn fyrirtækisins er vakin athygli á hagsmunum Landsvirkjunar innan friðlandsins. 

Hörður segir ennfremur að fyrirtækinu hafi á engan hátt verið kynnt frekari framvinda málsins. Hann bendir á að ef fyrirhugað sé að undirrita friðlýsingarskilmála á grundvelli 58. gr. náttúruverndarlaga þá sé það skilyrði að samkomulag hafi náðst við landeigendur, sveitarfélög og aðra hagsmunaaðila.

„Ljóst er að Landsvirkjun er mjög stór hagsmunaaðili í málinu. Landsvirkjun hefur lagst gegn friðlýsingunni og ekki hefur náðst samkomulag við Landsvirkjun sem hagsmunaaðila um málið. Þá er samþykki sveitarfélagsins Skagafjarðar með fyrirvara um að Landsvirkjun geti ráðist í virkjunarframkvæmdir á svæðinu. Því virðist ljóst að skilyrði 58. gr. laganna hafa ekki verið uppfyllt og er málsmeðferð við meðferð og afgreiðslu málsins því ólögmæt,“ segir í bréfi Harðar til ráðherra.

Umhverfisstofnun vill eiga gott samráð við alla hagsmunaaðila

Umhverfisstofnun greinir frá því að auk erindisins frá Landsvirkjun hafi borist athugasemdir í gær frá tveimur sveitarfélögum.

Stofnunin segir að hún hafi í langan tíma unnið að undirbúningi friðlýsingarinnar og stofnaði samstarfsnefnd í byrjun árs 2010 með fulltrúum viðkomandi sveitarfélaga. Stofnunin hafi auglýst opinberlega skilmála friðlýsingarinnar, án lagaskyldu, til athugasemda. Þá hafi verið haldnir tveir opinberir kynningarfundir í mars á þessu ári vegna fyrirhugaðrar stækkunar. Farið hafi verið yfir allar athugasemdir sem bárust á fundum samstarfsnefndar vegna friðlýsingarinnar, síðast á fundi þann 8. apríl síðastliðinn. 

„Athugasemdir Landsvirkjunar vegna málsmeðferðarinnar sem bárust fyrst í gær eru þær að fyrirtækinu hafi ekki borist upplýsingar um afstöðu til athugasemda þess og að nauðsynlegt sé að fyrir liggi samþykki Landsvirkjunar eigi að friðlýsa á grundvelli 58. gr. náttúruverndarlaga. Sjá meðfylgjandi erindi Landsvirkjunar. 

Umhverfisstofnun hefur lagt ríka áherslu á að vanda undirbúning friðlýsingarinnar og eiga gott samráð við alla hagsmunaaðila sem að málinu koma eins og sveitarfélög og Landsvirkjun. Ráðuneytið og Umhverfisstofnun telja því mikilvægt að fara yfir þær athugasemdir Landsvirkjunar sem varða tiltekna þætti í undirbúningi friðlýsingarinnar. Því hefur Umhverfisstofnun, að höfðu samráði við umhverfis- og auðlindaráðuneytið ákveðið að fresta fyrirhugaðri undirritun á stækkuðu friðlandi Þjórsárvera þar til búið er að fara yfir framangreindar athugasemdir í samráði við hlutaðeigandi aðila,“ segir í tilkynningu frá Umhverfisstofnun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert