Aðeins fjórir stofnvegir eru skilgreindir á miðhálendinu í gildandi samgönguáætlun. Þeir eiga að tengja vegakerfi hálendisins við þjóðvegi á láglendi. Vatnajökulsvegur sem áhugahópur á Austurlandi hefur nú komið inn í umræðuna er ekki þar á meðal.
Stofnvegirnir fjórir eru Sprengisandsleið, Kjalvegur, Fjallabaksleið nyrðri og Kaldadalsvegur. Í tillögu til þingsályktunar um landsskipulagsstefnu sem lögð var fram á síðasta þingi en hlaut ekki afgreiðslu voru aðeins þessir fjórir stofnvegir nefndir. Út frá stofnvegum liggja svokallaðir landsvegir sem eru einnig hluti þjóðvegakerfisins.
Tillaga landsskipulagsstefnunnar um samgöngur á miðhálendinu grundvallaðist á svæðisskipulagi miðhálendisins sem staðfest var fyrir þrettán árum. Þar var gert ráð fyrir að stofnvegirnir yrðu byggðir upp sem góðir sumarvegir með brúuðum ám og færir fólksbílum. Þeir væru opnir að minnsta kosti 4-6 mánuði á ári. Á þeim tíma sem liðinn er hafa ekki miklir fjármunir verið lagðir í fjallvegina. Sprengisandur er til dæmis að mestu niðurgrafinn vegur og Kjölur að hluta.
Ýmis sveitarfélög og landshlutasamtök, meðal annars sem tengjast hugmyndum um nýjan Vatnajökulsveg frá Kárahnjúkum að Sprengisandsleið, hafa lagt áherslu á að bæta hálendisvegina og gera þá að heilsársvegum. Tilgangurinn er að stytta vegalendir milli landshluta og á því grundvallast hugmyndir áhugahóps um Vatnajökulsveg.