Ekki hefur fengist upplýst hvað umhverfisráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, ætli að gera varðandi undirskrift friðlýsingar vegna stækkunar friðlandsins í Þjórsárverum. Ráðherrann hefur ekki svarað símtölum mbl.is í morgun né heldur í gærkvöldi.
Í gær var tilkynnt á vef umhverfisráðuneytisins að undirritunin færi fram kl. 15 í dag í Árnesi í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Þar segir einnig undanfarin ár hafi verið unnið að stækkun friðlandsins í Þjórsárverum í samræmi við náttúruverndaráætlun 2009-2013. Svæðið var friðlýst árið 1981 og náði þá til 375 ferkílómetra en með stækkuninni yrði friðlandið alls 1.563 ferkílómetrar.
Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sagði í samtali við mbl.is í gærkvöldi að hún teldi málsmeðferðina óviðunandi og full ástæða væri til að staldra við. Hún hefði því farið fram á það við umhverfis- og auðlindaráðherra að hann frestaði þessari undirritun.
Hún segir að svo virðist sem ekki hafi verið tekið tillit til athugasemda Landsvirkjunar sem fyrirtækið sendi Umhverfisstofnun í byrjun apríl síðastliðins. „Um er að ræða einn stærsta hagsmunaaðilann á svæðinu sem eðlilegt hefði verið samkvæmt lögum að ráðfæra sig við í þessu ferli.“
Ingveldur Sæmundsdóttir, aðstoðarmaður Sigurðar Inga, sagði í samtali við mbl.is í gærkvöldi að ákvörðun um hvort undirrituninni yrði frestað yrði tekin í dag.
Opnar tómatabúð formlega í dag
Í dag milli kl. 14 og 16 verður Litla tómatbúðin, Friðheimum, Reykholti, Bláskógabyggð formlega opnuð og samkvæmt fréttatilkynningu ætlar Sigurður Ingi Jóhannsson, landbúnaðar-, sjávarútvegs-, umhverfis- og auðlindarráðherra, að opna verslunina formlega.