Þjóðaratkvæði um ESB ekki á dagskrá

Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, ásamt forvera sínum í embætti Össuri …
Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, ásamt forvera sínum í embætti Össuri Skarphéðinssyni. mbl.is/Kristinn

„Nýr utanríkisráðherra vinnur nú markvisst að því að stöðva aðildarferlið sem fyrri stjórn setti af stað fyrir fjórum árum,“ segir Ragnar Arnalds, fyrrverandi ráðherra og þingmaður, á vefsíðunni Vinstrivaktin gegn ESB. Hann sat í gær fund í samráðsnefnd sem sett var á laggirnar á síðasta kjörtímabili í tengslum við umsókn Íslands um inngöngu í Evrópusambandið sem fulltrúi samtakanna Heimssýnar en fundinn sótti einnig Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra. Fram kemur að samráðsnefndin hafi verið lögð niður á fundinum.

Ragnar segir að Gunnar Bragi hafi meðal annars lagt áherslu á það á fundinum að ekki stæði í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar að þjóðaratkvæðagreiðsla myndi fara fram um umsóknina að Evrópusambandinu heldur að gert yrði hlé á viðræðunum við sambandið. „Engir frekari fundir yrðu milli íslenskra embættismanna og fulltrúa ESB meðan svo stæði. Viðræður yrðu síðan ekki teknar upp að nýju nema því aðeins að það yrði samþykkt í þjóðaratkvæði.“

Ekkert lægi fyrir um það að sögn Gunnars Braga hvenær slík hugsanleg þjóðaratkvæðagreiðsla kynni að fara fram eða hvernig yrði staðið að henni. Ekki hefði heldur verið tekin nein ákvörðun um það hvort lögð yrði fram þingsályktunartillaga á Alþingi um afturköllun umsóknarinnar. Ragnar dregur þá ályktun af stjórnarsáttmálanum í ljósi fundarins „að spurningin um þjóðaratkvæði verði þá fyrst á dagskrá ef aftur myndast þingmeirihluti hér á landi fyrir því að gerður sé samningur við aðildarríki ESB um inngöngu.“

Grein Ragnars Arnalds

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert