Neytendasamtökin gagnrýna verðhækkanir á landbúnaðarvörum á síðustu árum og segja hækkanirnar mun meiri en sem nemur hækkun vísitölu neysluverðs. Þetta kemur fram á vef samtakanna.
„Síðustu ár hefur kjöt hækkað mikið í verði og miklu meira en sem nemur hækkun vísitölu neysluverðs. Það sama á raunar einnig við um egg. Hækkanirnar eru það miklar að þær eru algerlega óásættanlegar út frá hagsmunum neytenda,“ segir á vef Neytendasamtakanna.
Á þriggja ára tímabili, maí 2010 - maí 2013, hækkaði vísitala neysluverðs um 12,6% og matur og drykkjarvörur um 14,7%. Af einstökum kjöttegundum hækkaði nautakjöt mest eða um 30,9%, fuglakjöt (nánast eingöngu kjúklingur) um 29,1%, svínakjöt um 28,7% og lambakjöt um 27,1%.
Egg hækkuðu um 30,3%. Til samanburðar má geta þess að smjör hækkaði á þessu sama tímabili um 23,8%, fiskur um 22,1%, nýmjólk um 16,3%, ostar um 16,3%, brauð og kornvörur um 13,9% og loks ávextir um 11,9%.
Verðhækkanir framleiðenda enn meiri
Í greininni á vef Neytendasamtakanna kemur fram að þau hafi undir höndum yfirlýsingu frá endurskoðanda Haga sem m.a. rekur Bónus og Hagkaupsverslanirnar. Þar kemur fram að verðhækkanir hjá framleiðendum svínakjöts eru í raun enn meiri.
Ef litið er til tímabilsins mars 2010 - mars 2013 hafa grófbútaðir svínaskrokkar hækkað um 63,7% í heildsölu á þessu tímabili. Sem betur fer hefur þessi hækkun því ekki skilað sér nema að hluta til neytenda. Samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar hækkaði verð á svínakjöti til neytenda að meðaltali um 34,7% í verslunum á sama tímabili.
Miðað við það sem hér kemur fram er full ástæða til að samkeppnisyfirvöld skoði sérstaklega það sem gerst hefur á varðandi landbúnaðarvörur. Það er til að mynda full ástæða til að ætla að í krafti aukinnar fákeppni hafi aðilar einfaldlega misnotað aðstöðu sína með mun meiri verðhækkunum en almennt hafa orðið á öðrum vörum. Það er hvorki boðlegt né ásættanlegt að framleiðendur og heildsalar geti í krafti fákeppni og jafnvel einokunar svínað endalaust á neytendum,“ segir á vef Neytendasamtakanna en undir greinina ritar Jóhannes Gunnarsson, formaður samtakanna.