Það var liðið Team IP sem kom fyrst í mark í hjólreiðakeppninni Wow Cyclothon sem lauk í dag. Liðið er skipað gömlum hlaupurum sem tóku upp á því fyrir stuttu að hjóla með þessum góða árangri en 24 lið tóku þátt og hjóluðu 1.332 km leið hringinn í kring um landið.
Liðið sem er skipað þeim Sigurði Hansen, Einari Júlíussyni, Ívari Adolfssyni og Birki Marteinssyni var rétt rúmar 40 klukkustundir að hjóla leiðina en nákvæmari upplýsingar um tíma birtast síðar í dag.
Liðið Synir Helga varð í öðru sæti en liðin tvö fylgdust að megnið af leiðinni. Hægt var að heita á liðin til styrktar Barnaheillum og höfðu um 4 milljónir safnast þegar fyrstu liðin voru að koma í mark.