Landeigendur lokuðu svæðinu við Leirhnjúk norðvestur af Kröflu fyrir ferðamönnum þann 17. júní síðastliðinn af öryggisástæðum. Voru sett upp áberandi skilti um lokunina og kaðlar strengdir fyrir gönguleiðir samkvæmt þingeyska fréttavefnum 641.is. Þar segir að gönguleiðis í kringum Víti séu að sama skapi stórhættulegar ferðafólki og var því svæði af þeim sökum einnig lokað.
Haft er eftir Friðrik Degi Arnarsyni, landverði í Mývatnssveit, að ferðafólki hafi hins vegar ekki virt lokunina og setji sig í stórhættu með því að fara um Leirhnjúkasvæðið en mikill snjór er enn á því og við Víti liggur snjórinn yfir göngupalla á sumum stöðum. „Víða eru gönguleiðirnar á kafi snjó og ferðamenn sem hafa verið að fara inn á svæðið, þrátt fyrir lokun, hafa verið að ganga langt út fyrir gönguleiðirnar og sjá má slóðir í snjónum yfir stórhættulegar sprungur og inn á stórhættulegt hverasvæði,“ segir í fréttinni.
Friðrik segir í samtali við 641.is að svæðið sé stórhættulegt og að hann hafi miklar áhyggjur af stöðu mála. Margir erlendir ferðamenn geri sér ekki grein fyrir því hve hættuleg náttúra Íslands geti verið.