Flottur flugdagur

Skralli trúður stýrði í dag flugvél í fyrsta skipti, að …
Skralli trúður stýrði í dag flugvél í fyrsta skipti, að vísu með dyggri aðstoð Arngríms Jóhannssonar flugstjóra. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Árlegur Flugdagur var í dag, á vegum Flugsafns Íslands á Akureyri. Múgur og margmenni lagði leið sína á svæðið og fylgdist með vélum af flestum stærðum og gerðum, bæði á jörðu niðri og á lofti. Í lok dags var ein kennsluvéla Keilis í Reykjanesbæ nefnd í höfuðið á Arngrími Jóhannssyni flugstjóra.

TF Gná, þyrla Landhelgisgæslunnar, tók í dag þátt í dagskránni eins og stundum áður og vakti verðskuldaða athygli sem fyrr. Hún flaug yfir bæinn, sýndi ýmsar kúnstir og var síðan til sýnis fyrir gesti hátíðarinnar.

Einnig flugu yfir svæðið þotur ítalska flughersins sem eru hér á landi við loftrýmisgæslu og fólk hafði ekki síður gaman af þeim.

Þristinum, Páli Sveinssyni var líka flogið yfir svæðið og við stjórnvölinn um borð voru Akureyringarnir Hallgrímur Jónsson og Arngrímur Jóhannsson. Í lok dags var síðan ein flugvéla Keilis í Reykjanesbæ nefnd í höfuð Arngríms, sem fyrr segir, vegna frumkvöðlastarfs hans í gegnum árin, að sögn Hjálmars Árnasonar framkvæmdastjóra Keilis, miðstöðvar vísinda, fræða og atvinnulífs, en Keilir rekur m.a. flugakademíu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert