Uppljóstranir Edwards Snowdens um njósnastarfsemi Bretlands og Bandaríkjanna hafa á undraskömmum tíma valdið miklu fjaðrafoki um allan heim. Meðal þess sem fram kom var að bresk stjórnvöld hefðu stundað víðtækar njósnir um erlenda stjórnmálamenn og sendinefndir á G20-ráðstefnunni í London árið 2009. Löngum hafa verið uppi getgátur um njósnir af þessu tagi en þetta er eitt af fáum tilvikum þar sem beinharðar sannanir liggja fyrir.
Í samtali við Morgunblaðið sagði Kristinn Hrafnsson, talsmaður WikiLeaks, ekki enn hafa borist upplýsingar um njósnir um íslensk stjórnvöld, sendinefndir eða stjórnmálamenn. „Þetta sýnir hversu langt menn eru tilbúnir að ganga og ætti ekki að koma mönnum á óvart að þessi tæki og tól séu notuð til að njósna um vinveitt ríki. Á tímabili áttum við í mjög harðvítugri deilu við bresk yfirvöld þar sem vísað var til hryðjuverkalaga sem ein og sér hefðu, miðað við hvernig landið liggur, gefið fulla heimild til að beita allri þessari tækni af öllu afli. Þannig að menn ættu að minnsta kosti að gera ráð fyrir því að Ísland, Íslendingar og íslenskir hagsmunir hafi verið skotmörk slíkra tilburða.“
Þær upplýsingar fengust frá utanríkisráðuneytinu að viðeigandi ráðstafanir væru gerðar til að verja tölvukerfi ráðuneytisins og sendiskrifstofa og héldu Norðurlönd uppi samstarfi sín á milli varðandi öryggismál utanríkisþjónustu. Ekki væru þekkt dæmi um að óviðkomandi aðilum hefði tekist að komast inn á tölvukerfi utanríkisþjónustunnar.