Skýringarnar fullkomlega eðlilegar

mbl.is/Sigurður Bogi

„Hvað varðar mistök Helgu Sigurrósar þá hef ég fengið útskýringar í dag frá henni persónulega um hvernig þetta vildi til. Þær skýringar eru fullkomlega eðlilegar í mínum augum og ég fyrirgef henni þessi mistök hennar sem hafa leitt til harðrar gagnrýni á hana persónulega og orðið að leiðindamáli fyrir okkur bæði þar sem verið er að draga mitt ágæta samstarfsfólk, yfirmenn og vinnustað inn í umræðuna.“

Þetta segir Agnar Kristján Þorsteinsson, sem ásamt Ísak Jónsson setti af stað undirskriftasöfnun á netinu gegn lækkun veiðigjalds, á heimasíðu sinni í dag en eins og fjallað hefur verið um í fjölmiðlum sendi Helga Sigurrós Valgeirsdóttir, aðstoðarmaður Sigurðar Inga Jóhannssonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, tölvupóst fyrir mistök á yfirmann Agnars fyrir helgi með boði á fund með ráðherranum vegna málsins.

Einlæg afsökunarbeiðni aðstoðarmannsins

Agnar rekur málið frá sinni hlið á heimasíðunni. Helga Sigurrós hafi reynt að hafa samband við sig bæði símleiðis og með tölvupósti vegna fundarboðsins sem ekki hafi skilað árangri vegna anna hans. Hún hafi þó að lokum náð í hann í síma. Á fundinum hafi það borist í tal að fundarboðið hafi verið sent bæði á persónulegt netfang Agnars og yfirmanns hans. Lögfræðingur þeirra Ísaks hafi mótmælt því og sagt að í því fælist hótun eða ógnun sem ekki ætti að eiga sér stað.

„Það kom aðeins fát á ráðherra og hans fólk, hann kannaðist ekki við þetta og aðstoðarkona hans, Helga Sigurrós, sagði að hún hefði reynt mikið að ná í mig og sent tölvupóstinn á þau netföng sem hún taldi tilheyra mér. Í kjölfarið bað ráðherra mig afsökunar á þessu og aðstoðarkona hans bað mig margoft afsökunar, bæði fyrir framan alla og svo persónulega þegar fundi var formlega lokið. Upplifun mín af þeirri afsökunarbeiðni var að Helga Sigurrós var mjög miður sín yfir þessu og meinti afsökunarbeiðnina af einlægni,“ segir hann.

Agnar bendir á að slíkar tölvupóstsendingar geti haft þau áhrif á venjulegt fólk að það til að mynda nýti sér ekki tjáningarfrelsi sitt. Því beri alltaf að líta slíkt alvarlegum augum en ekki afgreiða það sem óeðlileg viðbrögð eða upphlaup ef það er tekið fyrir á þingi eða að ráðherrar þurfi að samskipti sín við borgarana sem virðast óeðlileg enda hafi Alþingi eftirlitsskyldu að gegna með framkvæmdavaldinu. Málinu sé annars lokið af hans hálfu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert