„Ef það reynist stefna þeirra stjórnvalda sem nú eru við völd að hluta Þjórsárvera skuli sökkt undir vatn, er Ungum umhverfissinnum gjörsamlega ofboðið. Af mörgum slæmum virkjanakostum er miðlunarlón í Þjórsárverum meðal þeirra allra verstu. Því hvetjum við Sigurð Inga til að halda stækkun friðlandsins í Þjórsárverum til streitu og þannig standa undir nafni sem ráðherra umhverfismála.“
Þetta segir í ályktun frá Ungum umhverfisverndarsinnum vegna ákvörðunar Sigurðar Inga Jóhannssonar, umhverfisráðherra, um að fresta friðlýsingu Þjórsárvera. Minnt er um einstakt votlendi á heimsvísu sé að ræða sem njóti verndar samkvæmt alþjóðlegum samþykktum og vísað í vefsíðu umhverfisráðuneytisins þar sem fram komi að stækkun friðlandsins sé mikilvæg til þess að tryggja víðtæka og markvissa verndun svæðisins. Þá er vakin athygli á að samkvæmt gildandi rammaáætlun hafi Þjórsárver verið sett í verndarflokk.
„Í ljósi þessa vekur ákvörðun Sigurðar Inga um frestun friðlýsingarinnar að beiðni Landsvirkjunar upp áríðandi spurningar um stefnu ríkisstjórnarinnar gagnvart rammaáætlun. Ungir umhverfissinnar óska eftir skýrum og afdráttarlausum svörum frá Sigurði Inga um hvort hann hyggist beita sér fyrir eða gegn virkjanaframkvæmdum á svæðinu.“