„Það er ekkert í hendi,“ segir Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, í samtali við mbl.is spurð út í þá tilgátu Øysteins Jakobsen, leiðtoga norska Pírataflokksins, að bandaríski uppljóstrarinn Edward Snowden sem nú er staddur í Moskvu höfuðborg Rússlands ætli þaðan til Noregs og áfram til Íslands. Jakobsen sagðist hafa þessar upplýsingar innan úr alþjóðlegu Píratahreyfingunni.
Birgitta segist hafa rætt málið við Jakobsen á þeim forsendum að ekkert væri fast í hendi í þessum efnum. „Ég hef heyrt þetta en það er augljóst miðað við það sem komið hefur fram í heimsmiðlunum að hann er nú á einhverri annarri leið,“ segir hún. Spurð hvort hún telji að tilgáta Jakobsen sé röng segist hún ekkert geta fullyrt um málið. „Ég veit ekkert meira en þú.“