Rannveig Guðmundsdóttir fyrrum félagsmálaráðherra og þingmaður Samfylkingarinnar segir í viðtali við bæjarblaðið Kópavog að ef Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra hefði greitt atkvæði með ákærum í Landsdómsmáli þá hefði hún sagt sig úr flokknum.
„Ég tók t.a.m. landsdómsmálið mjög nærri mér á sínum tíma og að minn flokkur, Samfylkingin stæði að ákærum. En ég segi það nú, að ef Jóhanna Sigurðardóttir formaður flokksins og forsætisráðherra hefði ekki greitt atkvæði gegn ákærum, hefði ég farið úr flokknum,“ segir Rannveig í viðtalinu en Jóhanna greiddi atkvæði gegn því að ákært yrði í Landsdómsmáli sem endaði með ákæru á hendur Geir Haarde fyrrum forsætisráðherra.
Þar segir hún jafnframt: „Það er í senn athyglisvert og alvarlegt að í dag skuli Evrópuráðið vera að fjalla um pólitískar ákærur í Evrópulöndum og í því sambandi vera að skoða Ísland og Úkraínu í sama vettvangi. Það er hræðilegt að vera sett á rannsóknarbekk með stjórnarfari í Úkraínu og Íslandi,” segir Rannveig.
„Verður að hætta að búa til sökudólga“
Í viðtalinu kennir ýmissa grasa og telur hún að flokkurinn geti horft með stolti á þann árangur sem náðist í efnahagsmálum á síðasta kjörtímabili. Margir flokksmenn hafi orðið fyrir vonbrigðum með gengið í alþingiskosningunum í maí en Samfylkingarfólk þurfi að hætta að leita sökudólga. „Það er mín staðfasta skoðun að við hefðum átt að kjósa fyrr þann formann sem myndi leiða okkur í kosningum. Það kom líka oft illa út að ríkisstjórnin var að kynna ýmislegt og nýi formaðurinn hvergi nálægt. Við lærum vonandi af því sem miður fór á þessum árum. Það hentaði að skella skuld á okkar besta stjórnmálamann Ingibjörgu Sólrúnu fárveika þegar öllum leið illa eftir hrunið. Það hefur borið á því sama gagnvart Jóhönnu og sumir vilja kenna nýjum formanni Árna Páli um að kosningar unnust ekki. Samfylkingafólk þarf og verður að hætta að búa til sökudólga,“ segir Rannveig.
Ítarlegt viðtal við Rannveigu má finna hér.