Skora á Kristján Þór að bæta þjónustuna

Sjúkrahúsið á Akureyri.
Sjúkrahúsið á Akureyri. mbl.is/Skapti

Barnageðlæknafélag Íslands, BGFÍ skorar á nýjan heilbrigðisráðherra, Kristján Þór Júlíusson, að beita sér fyrir bættri stöðu barna- og unglingageðlækninga innan Sjúkrahússins á Akureyri og Landspítalans.

Í ályktun frá félaginu segir að í vetur hafi verið gerðar skipulagslegar breytingar á Sjúkrahúsinu á Akureyri sem urðu til þess að staða einu barna- og unglingageðdeildar utan Landspítala (BUGL) breyttist með óásættanlegum hætti að mati sérfræðinga deildarinnar og leiddu til uppsagnar þeirra.

Það er að mati stjórnar BGFÍ óviðunandi að mikilvæg starfsemi barna- og unglingageðdeildar Sjúkrahússins á Akureyri hafi verið lögð niður með þessum hætti og fjármunir þar með teknir út úr fjársveltri geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn, unglinga og fjölskyldur þeirra, segir í ályktuninni.

Jafnframt er bent á að stjórnunarleg staða barna- og unglingageðdeildar Landspítala (BUGL) hefur verið gagnrýnd í úttektum innlendra og erlendra sérfræðinga fyrir að taka ekki nægjanlegt mið af þörfum þeirrar þjónustu sem deildinni er ætlað að veita. Biðlistar hafa lengi verið vandamál og lengjast enn.

BGFÍ skorar á heilbrigðisráðherra að beita sér fyrir endurskoðun á stöðu barna- og unglingageðdeilda með það að markmiði að efla þjónustu þeirra á landsvísu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert