„Ég kláraði alla stærðfræðiáfanga sem voru í boði í Fjölbrautaskóla Suðurnesja sem voru um tíu talsins. Stærðfræði er mitt fag og ég er nokkuð góð í henni. Stærðfræðigreiningin hefur heillað mig mest og líka tölfræði og diffrun. Það hentar mér vel að leysa löng dæmi,“ segir Birna Helga Jóhannesdóttir sem hlaut styrk úr afreks- og hvatningarsjóði til náms við Háskóla Íslands þar sem hún mun leggja stund á stærðfræði.
Birna Helga útskrifaðist úr Fjölbrautaskóla Suðurnesja fyrir síðust jól eftir einungis fimm anna nám. Hún var dúx skólans og hlaut viðurkenningar í öllum þeim greinum sem verðlaun voru veitt fyrir. Birna er á nítjánda ári og hefur lagt stund á knattspyrnu og dans ásamt því að hafa stundað hljóðfæranám.
„Ég tók eina önn í einu og þetta var ekkert mjög útpælt en þegar ég sá að ég átti lítið eftir í lokin þá dreif ég þetta af,“ segir Birna Helga. Lærdómur liggur vel fyrir henni og þótti henni því ekki ýkja erfitt að ljúka nám til stúdentsprófs á tveimur og hálfu ári. Henni hefur alltaf gengið vel að læra og á auðvelt með að leggja á minnið. Hún flýtti meðal annars fyrir sér með því að taka fyrstu áfangana í stærðfræði og ensku í grunnskóla.
„Ég ætlaði að fara í lögfræði til að byrja með en svo sá ég að stærðfræðin hentar mér alveg pottþétt og því ákvað ég að fara í hana,“ segir Birna Helga. Hún stefnir á að klára BS-prófið á Íslandi og fara í skiptinám í MS-náminu, að öllum líkindum verður Bandaríkin fyrir valinu.
Frá því Birna Helga lauk dúxaði úr FS hefur hún notið lífsins og farið m.a. til Tenerife, Óslóar og London. Nú starfar hún í banka í Keflavík og segir að það eigi afskaplega vel við sig þar sem hún leikur sér að tölum.