Sýklalyf séu notuð á ábyrgan hátt

mbl.is/Sverrir

Notkun sýklalyfja á Íslandi í mönnum hefur hefur nokkurn veginn staðið í stað síðustu fimm árin, en heildar sala hefur verið í kringum 22 skilgreindir dagskammtar. Notkun sýklalyfja í dýrum hefur hins vegar farið minnkandi. Í nýrri skýrslu landlæknisembættisins kemur fram að sýklalyfjaónæmi sé alþjóðlegt vandmál og að á Íslandi sé hvatt til þess að sýklalyf séu notuð með ábyrgum hætti.

Við notkun sýklalyfja í mönnum bætist svo notkun á lyfjum sem ekki eru markaðssett á Íslandi og fást á undanþágu, en það var um það bil 0,18 skilgreindir dagskammtar á árinu 2012.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu um sýklalyfjanotkun og sýklalyfjaónæmi baktería í mönnum og dýrum á Íslandi árið 2012, sem birt er á vef landlæknisembættisins. Sambærileg skýrsla um sýklalyfjanotkun í mönnum hefur komið út undanfarin ár en nú hefur bæst við umfjöllun um notkunina í dýrum og sýklalyfjaónæmi baktería.

Mest notuð utan heilbrigiðsstofnana

Í skýrslunni kemur fram, að notkun sýklalyfja sé að mestu leyti utan heilbrigðisstofnana, eða 90%. Þó sé misjafnt eftir undirflokkum sýklalyfja að hve miklum hluta þau séu notuð innan og utan stofnana.

Sýklalyfjanotkun utan heilbrigðisstofnana er mest á höfuðborgarsvæðinu, eða rétt yfir 20 skilgreindir dagskammtar, og hefur verið að aukast síðan 2009. Minnst er notkunin á Norðurlandi-eystra.

Ríflega helmingur þeirra sýklalyfja sem seld voru á Íslandi árið 2012 tilheyra flokki beta-laktam sýklalyfja eða penicillína. Tetracýklínsambönd eru næst mest notaði flokkurinn eða tæplega fjórðungur seldra sýklalyfja. Aðrir flokkar eru minna notaðir, að því er segir í skýrslunni.

Sýklalyfjanotkun í dýrum dregist saman um 23% frá 2010

Varðandi notkun á sýklalyfjum handa dýrum, þá kemur fram að upplýsingar um það hafa verið teknar saman af Lyfjastofnun frá árinu 2010. Heildar sýklalyfjanotkun í dýrum hefur heldur dregist saman frá árinu 2010, eða um tæp 23%. Mestu munar þar um minni sölu á beta-laktamasanæmum penicillínum, úr 0,425 tonnum í 0,2855 tonn eða um tæp 33%. Einnig minnkaði sala á tetracyclinsamböndum mikið, eða um 58% á tímabilinu 2010-2012. Sala á breiðvirkum penicillínum jókst hinsvegar talsvert á sama tímabili, eða um 37,5%.

Aukið ónæmi fyrir sýklalyfjum valda vandamálum

Í inngangi skýrslunnar segir, að mikil áhersla hafi verið lögð á það í alþjóðasamfélaginu undanfarin ár að sporna við auknu sýklalyfjaónæmi baktería. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hafi skilgreint sýklalyfjaónæmi sem eina af stærstu heilbrigðisógnum heimsins. Aukið ónæmi fyrir sýklalyfjum valdi vandamálum við meðferð sýkinga og hafi þar af leiðandi slæmar afleiðingar fyrir heilsu manna og dýra og valdi auknum kostnaði við heilbrigðisþjónustu.

„Sóttvarnastofnun Evrópusambandsins (European Centre for Disease Prevention and Control - ECDC) áætlar að í Evrópu einni komi upp um það bil 400 þúsund sýkingar á ári hverju af völdum ónæmra sýkla sem leiða til um 25 þúsund dauðsfalla. Með auknum ferðalögum og viðskiptum með matvæli og dýraafurðir heimshorna á milli opnast leiðir fyrir sýklalyfjaónæmar bakteríur til að dreifa sér. Sýklalyfjaónæmi er því alþjóðlegt vandmál,“ segir í skýrslunni.

Þá segir, að sýklalyfjanotkun sé áhrifamesti þátturinn í vali og dreifingu sýklalyfjaónæmis, þótt sambandið geti verið flókið. Röng og/eða of mikil notkun sýklalyfja auki hættu á uppkomu og útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería. Forsenda markvissra aðgerða gegn óskynsamlegri sýklalyfjanotkun sé að hafa góðar og áreiðanlegar upplýsingar um notkun sýklalyfja og þróun ónæmis gegn þeim.

„Á Íslandi er hvatt til þess að sýklalyf séu notuð með ábyrgum hætti. Áhersla er lögð á sýkingavarnir á heilbrigðisstofnunum og fylgst er með tíðni sýkinga sem tengjast heilbrigðisþjónustunni,“ segir í skýrslunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert