„Ég vísa því algjörlega á bug að hér fari fram einhvers konar skoðanakúgun eða innræting í pólitík eða á öðrum sviðum,“ segir Hjálmar H. Ragnarsson, rektor Listaháskóla Íslands, en í sunnudagsútgáfu Morgunblaðsins sagði listamaðurinn Pétur Gautur að kennarar skólans innprenti hjá nemendum sínum hatur á Sjálfstæðisflokknum.
Pétur Gautur sagðist hafa fyrir því fjölmargar sannanir og að það væri hræðilegt að hafa slík mótunaráhrif á ungt og hæfileikaríkt listafólk. Þá sagði hann að þeir væru svo gott sem álitnir svikarar sem eru hægrisinnaðir.
Hjálmar segir að mörg hundruð manns komið að skólanum sem kennarar og hafi fjölbreyttar skoðanir á öllum hlutum, þeir eigi enda að endurspegla samfélagið. „Það eiga að rýmast ólíkar skoðanir og það er grundvöllur akademíunnar að það gerist,“ segir Hjálmar og tekur fram að hann hafi aldrei fengi erindi frá nemanda eða kennara þar sem kvartað var undan pólitískri innrætingu. „Menn geta haft sínar skoðanir og viðrað þær innan háskólasamfélagsins en að hér skuli vera, eins og hann gefur í skyn, skipulögð innræting, þá er það algjörlega fráleitt.“
Þá segir Hjálmar að listir og pólitík tengist að sjálfsögðu, þó ekki endilega flokkspólitík. „Listir hafa samfélagslegar tengingar sem eru mjög mikilvægar og þar af leiðandi hlýtur umræða innan listaháskóla að tengjast samfélaginu með einhverjum hætti. Það er bara gott. Nemendur í listaháskóla eru einnig fullorðið fólk og ég treysti því að það geti svarað fyrir sig.“