Fyrsti dagur gjaldtöku gekk vel

Fyrstu ferðamennirnir sem borga fyrir aðgang að Kerinu.
Fyrstu ferðamennirnir sem borga fyrir aðgang að Kerinu. Styrmir Kári

„Fólki fannst þetta allt hið eðlilegasta og sumir lýstu yfir mikilli ánægju yfir því að þetta væri byrjað," segir Gunnar O. Skaptason, framkvæmdastjóri Kerfélagsins, en gjaldtaka við Kerið í Grímsnesi hófst í dag. Hver sá sem vill skoða náttúruperluna þarf að greiða 350 krónur og tekur starfsmaður félagsins við greiðslunni. 

Ferðamenn segja gjaldtökuna þarfa

Gunnar segir fyrsta daginn hafa gengið ljómandi vel og án vandræða. Margir hafi gefið sig á tal við starfsmann félagsins en flestir hafi verið þeirrar skoðunar að gjaldtakan væri jákvæð og hið þarfasta mál. 

Ferðir hópferðabíla hafa ekki verið leyfðar að Kerinu að undanförnu en það breyttist í dag, samhliða gjaldtökunni. „Það komu nokkrar rútur og þeir gengu frá sínum greiðslum eins og aðrir,“ segir Gunnar. 

Njóta náttúruperlunnar ef til vill á annan hátt

Aðspurður telur Gunnar að ferðamennirnir njóti Kersins ef til vill á annan hátt, nú þegar þeir þurfa að greiða fyrir upplifunina. Einn fararstjóranna kom að máli við hann í dag og sagði hópinn sem hann fylgdi hafa eytt heldur lengri tíma á staðnum en þeir hópar sem hann hefur áður komið með. 

Opnunartími svæðisins er frá kl. 10 á morgana til kl. 20 á kvöldin. Starfsmaður Kerfélagsins stendur vaktina og tekur á móti greiðslum. Gunnar segir sumarið verði nýtt sem reynslutíma og verði staðan metin að honum loknum. „Það er dýrt að hafa mann á staðnum og við þurfum að finna aðferð til að lækka þann kostnað,“ segir hann. 

Frétt mbl.is: Hefja gjaldtöku við Kerið

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert