Hefja gjaldtöku við Kerið

Upplýsingaskilti um gjaldtökuna var sett upp við Kerið í morgun.
Upplýsingaskilti um gjaldtökuna var sett upp við Kerið í morgun. mbl.is/Styrmir Kári

Kerfélagið ehf. hefur hafið gjaldtöku við Kerið í Grímsnesi. Hver ferðamaður greiðir kr. 350,   2 evrur eða 3 bandaríkjadali. Börn tólf ára og yngri greiða ekki gjald. Ferðir hópferðabíla eru leyfðar á ný en gegn gjaldi.

Í fréttatilkynningu segir að gjaldið geri Kerfélaginu kleift að vernda viðkvæma náttúru svæðisins svo unnt sé að halda áfram að taka á móti ferðamönnum. Að svo stöddu verður gjaldið innheimt af starfsmanni Kerfélagins á staðnum en reynslan verður látin skera úr um hvers konar fyrirkomulag innheimtu er heppilegt til frambúðar.

Svæðið hefur nú verið afgirt og merkt. Þar er komin upp nestisaðstaða og opnuð hefur verið heimsíðan, kerid.is. Þá verður gestum afhentur upplýsingabæklingur um Kerið á þremur tungumálum.  

„Öllum er orðið ljóst af þeirri miklu umræðu sem farið hefur fram að undanförnu að óskipulagður aðgangur að fjölsóttum ferðamannastöðum gengur ekki lengur,“ segir í tilkynningu Kerfélagsins. „Margir ferðmannastaðir eru illa farnir af ágangi ferðamanna, jafnvel svo að grípa hefur þurft til lokana.“

 Á árinu 2008, þegar Kerfélagið lokaði fyrir aðgang hópferða að Kerinu, höfðu stjórnvöld uppi fyrirheit um að finna með hraði lausn á þeim vanda sem við blasti á ferðmannastöðunum. Efndir þeirra fyrirheita hafa látið á sér standa í fimm ár, segir í tilkynningu Kerfélagsins

Að mati Kerfélagsins hafa Samtök ferðaþjónustunnar einnig reynst þess vanmegnug að leysa vandann og ekki haft uppi aðrar lausnir en almenna skattlagningu.

Þeir sem njóti eiga að greiða

Kerfélagið hefur því ákveðið að hefja gjaldtöku. „Ekki dugar að bíða allsherjarúrlausnar stjórnvalda því þrátt fyrir rösklega framgöngu nýs ráðherra ferðamála er ljóst að niðurstöðu er ekki að vænta í bráð,“ segir ennfremur í tilkynningunni. 

Það er skoðun Kerfélagsins að þeir sem njóti eigi að greiða. Þeirri meginreglu er að sögn félagsins fylgt á ferðmannastöðum um allan heim. „Mismunun á grundvelli þjóðernis mun valda flækjum og illindum. Á slíkt fyrirkomulag á ekki að fallast. Töfraorðið Náttúrupassi fyrir allt landið, mun heldur ekki leysa allan vanda en slíkir passar gætu þó komið til greina á afmörkuðum svæðum.“

Ferðamenn við Kerið.
Ferðamenn við Kerið. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert