Mynstur í innflutningi kókaíns

Kókaín sturtað á borð.
Kókaín sturtað á borð. Skjáskot úr þættinum

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt tvo Litháa í fangelsi fyrir aðild að innflutningi á tæpum fimm hundruð grömmum af kókaíni. Enn á þó eftir að dæma í máli Íslendings sem talinn er tengjast innflutningnum. Litháarnir sem hlutu sjö og tólf mánaða fangelsi hyggjast una dómnum.

Greint var frá aðalmeðferð málsins á mbl.is fyrr í þessum mánuði. Þar kom fram að lögreglan var með fingurinn á púlsinum allan tímann. Eftir að hafa fengið upplýsingar frá Tollstjóra um ákveðið ferðamynstur tiltekinna einstaklinga hafi rannsókn hafist og leitt til þess að burðardýr - sá sem hlaut sjö mánaða fangelsi - var handtekið í mars síðastliðnum. Hafði það þá komið til landsins frá London en verið hleypt í gegnum tollinn til að hægt væri að veiða fleiri viðriðna innflutninginn.

Þrír menn voru ákærðir í tengslum við málið en greinilegt er að innflutningurinn er mun umfangsmeiri. Þannig voru tengsl við annan Litháa sem handtekinn var í Ölfusborgum í október 2011. Var þá um 374 g af kókaíni að ræða.

Og ofan í lagt má nefna að Hæstiréttur staðfesti farbann yfir karlmanni í gær sem kom til landsins frá London í mars vegna aðildar að innflutningi að 283,29 g af kókaíni sem falin voru innvortis. Greinilegt mynstur má lesa út úr greinargerð lögreglustjórans á Suðurnesjum og því máli sem hér er til umfjöllunar.

Eins og í því máli sem farbann var staðfest þá er í þessu Íslendingur talinn höfuðpaur. Þáttur hans var hins vegar klofinn frá til þess að hægt væri að rannsaka þátt hans betur - eins og í farbannsmálinu. Samkvæmt heimildum mbl.is er þar um að ræða mann sem lögregla hefur um góðan tíma haft grunaðan um innflutning fíkniefna.

Taka ber fram að í saksóknari fór fram á tólf mánaða gæsluvarðhaldi yfir burðardýrinu og átján mánaða fangelsi yfir hinum manninum. Héraðsdómur Reykjaness féllst því ekki á ýtrustu kröfur ákæruvaldsins.

Verjandi burðardýrsins fór hins vegar fram á sex mánaða fangelsi og er því refsingin nær því. Og þó svo verjandi hins mannsins hafi farið fram á sýknu þá var varakrafan 10-12 mánaða fangelsi þannig að segja má að dómurinn hafi fallist á hana einnig.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka