„Þetta eru mikil vonbrigði,“ segir Guðmundur Magnússon, formaður Öryrkjabandalags Íslands, um frumvarp Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, sem kynnt var í dag. Frumvarpinu er ætlað að afturkalla ýmsar skerðingar sem urðu á kjörum aldraðra og öryrkja sem komu til vegna breytinga á lögum um almannatrygginga árið 2009.
„Þeir velja það af skerðingunum frá 2009 sem kosta minnst,“ sagði Guðmundur í samtali við mbl.is. „Þetta kemur sér vel fyrir einhverja en það er bara allt of lítill hópur af okkar fólki sem nýtur þessara breytinga.“
Guðmundur segist harma að ekki hafi verið staðið við kosningaloforð og segir bæði Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn hafa lofað að leiðrétta skerðingar aldraðra og öryrkja strax. „Þetta eru ekki útgerðarmenn og stóreignarfólk og því var kannski við því að búast að við fáum svona fljótt lagfæringar og aðrir,“ segir hann. „Ég hefði viljað sjá að þeir ætluðu sér að hækka bæturnar þannig að fólk gæti mögulega lifað af.“
Frétt mbl.is: „Skýr skilaboð til aldraðra“
Frétt mbl.is: Frítekjumark aldraðra hækkað