Flaskan kostaði 42.960 krónur

AFP

Neytendasamtökin birtu nýverið á vefsvæði sínu bréf frá neytanda sem kvartar yfir álagningu á sterku víni á veitingastöðum. Taldist honum til að flaska af Larsen VSOP koníaki hafi kostað 42.960 krónur á veitingastað í Reykjavík eða 34 þúsund krónum meira en í Vínbúð. 

Í bréfinu rekur maðurinn að hann og félagi hans hafi pantað sér tvöfalda Larsen VSOP á veitingastað í borginni. Þeir hafi svo rekið upp stór augu þegar þeir sáu reikninginn og að þeim væri gert að greiða 7.160 fyrir drykkina. Tvöfaldur koníak var því á 3.580 krónur. 

Maðurinn bendir á að flaska af þessu tiltekna koníaki kosti í Vínbúðinni 8.950 krónur og munaði því ekki nema 1.790 krónum á heilli flösku og fjórum einföldum. „Í hverri flösku eru 24 einfaldir, þannig að flaskan kostaði á þessu veitingahúsi 42.960 krónur! Er þetta boðlegt? Hagnaður á flösku er 34 þúsund krónur.“

Ennfremur segist maðurinn hafa fengið sér einfaldan gin í fordrykk. „Kostaði 1.100 krónur einfaldur, þannig að flaskan af gini, sem kostar kr. 5.499 hjá ÁTVR, er verðsett á 26.400 krónur og mismunur því um 21 þús. krónur.”

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert