Vísindanefnd Hvalveiðiráðsins, SC, hélt nýlega árlegan fund sinn í S-Kóreu og var Gísli Víkingsson hvalasérfræðingur einn fjögurra fulltrúa Íslands. Gísli segir vísindanefndina ekki rengja mat íslenskra vísindamanna sem álíta að stofn langreyðar hér sé í góðu standi og þoli veiðar. Á lista náttúruverndarsamtakanna IUCN er langreyður sögð í útrýmingarhættu.
„En þá er öllum langreyðarstofnum heims slegið saman í eitt púkk og það metið eins og einn stofn,“ segir Gísli. Ekki sé um það deilt að stofnarnir séu nokkrir. Enginn samgangur sé á milli stofns á N-Atlantshafi og stofns á suðurhveli jarðar sem sé auk þess sérstök undirtegund. Hann sé langstærsti stofn langreyðar, honum hafi hnignað mikið en á N-Atlantshafi hafi orðið fjölgun.
Þáverandi formaður nefndarinnar, Bretinn Philip Hammond, sagði strax af sér. „Hvaða gagn er að því að vera með vísindanefnd ef móðurstofnun hennar meðhöndlar einróma álit hennar í mikilvægu máli með slíkri fyrirlitningu?“ sagði hann. Stuðningsmenn hvalveiða segja að IWC sé orðið hvalverndarsamtök.