„Ofboðslega langt gengið“ í söfnun persónuupplýsinga

Hagstofa Íslands
Hagstofa Íslands mbl.is/Sverrir

„Eins og frumvarpið lítur út í dag er einskis meðalhófs gætt,“ segir Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, um frumvarp um breytingar á lögum um Hagstofu Íslands. Í frumvarpi um breytingar á lögum um Hagstofu Ísland og opinbera hagsýslugerð er gert ráð fyrir mjög auknum heimildum Hagstofunnar til að afla upplýsinga um fjárhagsupplýsingar einstaklinga og lögaðila. Umsagnaraðilar telja öryggi persónuupplýsinga ekki nægilega tryggt í frumvarpinu.

„Það er með þessu farið út fyrir allan vanda. Hvaða vanda er verið að takast á við?,“ spyr Vilhjálmur. „Það gengur ekki að Hagstofan fái hér allar upplýsingar til að takast á við vanda í tímabundnu verkefni. Það að halda að það sé hægt að dulkóða svona upplýsingar sem þarf að tengja saman er í besta falli bjartsýni,“ segir Vilhjálmur.

Pétur H. Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur sömuleiðis efasemdir um hvort öryggi persónuupplýsinga sé nægilega tryggt hjá Hagstofu samkvæmt ákvæðum frumvarpsins. „Þarna virðist ekki vera gert ráð fyrir að allar upplýsingar verði dulkóðaðar, heldur verða mjög  viðkvæmar upplýsingar um fjármál einstaklinga settar inn í gagnagrunn og kennitalan ein dulkóðuð.“

Pétur segir einnig nauðsynlegt að skilgreina „heimili“ í frumvarpinu. „Besta skilgreiningin sem ég hef séð á heimili er að það sé hópur fólks sem notar sama ískáp án sérgreiningar,“ segir Pétur. „En það er enga skilgreiningu að finna í frumvarpinu á þessu og það er mikil þörf á því vegna þess hve heimilin eru orðin margbreytileg.“

Hann segir einnig að lauslega megi áætla að tæpur helmingur heimila í landinu búi annaðhvort í leiguhúsnæði eða eigi sitt húsnæði skuldlaust. „Þessir hópar eru því ekki í skuldavanda, þó svo að þeir kunni að vera í miklum fjárhagsvanda af öðrum ástæðum,“ segir Pétur. Hann telur hugsanlegt að ná megi þeim upplýsingum sem ætlað sé að afla með lögfestingu frumvarpsins með ítarlegum könnunum.

„Þetta frumvarp gengur lengra í því að safna saman fjárhagsupplýsingum um einstaklinga en í nokkru öðru Norðurlandi,“ segir Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata. „Þetta er ofboðslega langt gengið og ekki í samræmi við meðal annars meðalhófsreglu og býður upp á víðtækar og alvarlegar hættur sem þarf að taka mjög alvarlega. Það er ofboðslega hætt við að það gleymist að taka tillit til persónuverndarsjónarmiða, en það er mikilvægara en nokkru sinni,“ segir Helgi Hrafn. Hann telur að frumvarpið gangi lengra í söfnun persónuupplýsinga en þörf krefur í ljósi markmiðs frumvarpsins.

Þarf að taka til gaumgæfilegrar skoðunar

Páll Valur Björnsson, þingmaður Bjartrar Framtíðar, segir áríðandi að hlusta á umsagnaraðila við vinnslu frumvarpsins. „Það sem við leggjum áherslu á í Bjartri Framtíð er að hlusta á alla umsagnaraðila. Við leggjum okkar línur út frá því. Lögin verða að vera mjög skýr því upplýsingarnar eru svo viðkvæmar upplýsingar. Sumir hafa lagt áherslu á að það þurfi meiri tíma til að vinna þetta, en þetta verður að vera mjög skýrt.“

Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknar og fulltrúi allsherjar- og menntamálanefnd, segir að nefndin hafi í dag tekið á móti umsagnaraðilum og að það muni halda áfram á morgun. „Það er ljóst að það eru í frumvarpinu mörg atriði sem þarf að taka til gaumgæfilegrar skoðunar, segir Líneik,“ og vísar með því til persónuverndarsjónarmiða.

Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, segir að viðhorf þingmanna Samfylkingarinnar til frumvarps um öflun upplýsinga sé almennt jákvætt, en að vel þurfi að gæta að persónuverndarsjónarmiðum og að upplýsingar um fjármál fólks séu ekki færðar inn á hið pólitíska svið. „Við erum alveg sammála markmiðinu. Það þarf að hafa eins góðar upplýsingar og mögulegt er en það verður að útfæra með tilliti til persónuverndar,“ segir Helgi Hjörvar. „Ég hef sem þingflokksformaður lýst því yfir að við í Samfylkingunni munum greiða leið þeim málum ríkisstjórnarinnar sem lúta að því að greiða úr skuldavanda heimilanna og bæta kjör þeirra, og þetta er klárlega eitt af þeim málum.“

Viljum þetta ekki alla jafna

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, telur að heimildir Hagstofunnar til upplýsingaöflunar gangi fullnærri friðhelgi borgaranna. „Svona í prinsippinu fyrir okkur sem erum hægra megin við miðju þá er þetta ekki það sem við viljum alla jafna,“ segir Brynjar. Hann segir nauðsynlegt að velta upp spurningum eins og hvort nauðsynlegt sé að ganga jafnlangt og frumvarpið gerir ráð fyrir til að takast á við skuldavana heimilanna. 

„Ég er ekki sannfærður um að það sé nauðsynlegt að gera þetta með þessum hætti. Svo veltir maður fyrir sér hvort það sé hægt að dulkóða þessi gögn með nógu tryggilegum hætti þannig að það sé ekki hægt að rekja þau til fólks. Ég hef heldur ekki fengið nægilega haldbær svör við þeim spurningum,“ segir Brynjar. „Í prinsippinu er ég ekki sáttur við þetta, en spurningin er hvort maður geti sætt sig við þetta með ákveðnum fyrirvörum. Ef þetta er forsenda og algjör nauðsyn fyrir því að ráðast á þennan skuldavanda heimilanna?“ segir Brynjar.

Sigríður Á. Andersen lýsti því einnig yfir í samtali við Morgunblaðið að frumvarpið gengi allt of langt, og að hún teldi að ekki hafi verið sýnt fram á að ná megi markmiðum frumvarpsins með vægari aðgerðum.

Neikvæðar umsagnir um frumvarpið

Frumvarpið hefur verið gagnrýnt af mörgum umsagnaraðilum, meðal annars á þeim forsendum að ekki þykir nægilega staðið vörð um persónuupplýsingar. Morgunblaðið fjallaði ítarlega um umsögn DataMarket, en þar er meðal annars goldið varhug við því að fela Hagstofunni nýtt hlutverk, sem samkvæmt lögunum á að vera tímabundið, en gera það ekki í sérlögum um verkefnið. Ennfremur segir í umsögninni að mjög örðugt gæti orðið að gera gögnin algjörlega ópersónugreinanleg.

Í umsögn sinni lýsir Persónuvernd yfir „áhyggjum af þeirri víðtæku vinnslu persónuupplýsingar sem ráðgerð er í frumvarpi þessu. Persónuvernd hefur efasemdir um nauðsyn þess að komið sé á fót opinberum gagnagrunni með jafn víðtækum persónuupplýsingum og hér um ræðir til þess að grípa megi til aðgerða til að greiða úr fjárhagsvanda fjölskyldna og einstaklinga í frumvarpinu skortir útskýringar á því hvers vegna þörf er talin á svo viðurhlutamiklum afskiptum af friðhelgi einkalífs. Telji löggjafinn engu að síður tilefni til að veita frumvarpinu lagagildi er lagt til að gerðar verði endurbætur á því þannig að skýrt verði mælt fyrir um hvernig öryggis verð gætt við vinnslu persónuupplýsinga á umræddum gagnagrunni, um tímamörk á varðveislu þeirra og um eyðingu gagnanna að þeim liðnum.“

Ekki hægt að standa utan gagnagrunnsins

Mannréttindaskrifstofa Íslands tekur í sama streng í umsögn sinni. Í umsögninni er skírskotað til ummæla í frumvarpinu um gagnagrunn á heilbrigðissviði, en í lögum um persónuvernd er vernd fjárhagsupplýsinga ekki jafnmikil og heilsufarsupplýsinga.

Skrifstofan segir „vert [...] að geta þess að samkvæmt lögum um gagnagrunn á heilbrigðissviði skyldu upplýsingarnar dulkóðaðar áður en þær færu inn í gagngrunninn þannig að starfsmenn gagnagrunnsins ynnu aðeins með ópersónugreinanlegar upplýsingar.“ Unnið var „að sérstöku öryggiskerfi utan um gagnagrunninn sem meðal annars mælti fyrir um aðgangsstýringar, rekjanleika, dulkóðun, o.fl. og höfðu starfsmenn Persónuverndar yfirumsjón með þeirri vinnu. Samkvæmt lögunum er sjúklingi og heimilt að óska eftir því að upplýsingar um hann verði ekki fluttar í gagnagrunninn, sbr. 8. gr., og er skylt að verða við beiðni hans.“

Ekki er hægt að sjá af frumvarpinu um breytingar á lögum um Hagstofuna að einstaklingar eða lögaðilar geti krafist þess að upplýsingar um þá fari ekki inn í gagnagrunninn. Í umsöginni segir „að ekki sé gert ráð fyrir því í frumvarpinu eða í lögum nr. 163/2007, um Hagstofu Íslands og opinbera hagsýslugerð, að einstaklingurinn geti haft neitt að segja um það hvort þessara upplýsinga um hann er aflað. Skal í því sambandi m.a. vísað til 20. gr. laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, um skyldu ábyrgðaraðila til að láta hinn skráða vita um vinnslu persónuupplýsinga þegar þeirra er aflað hjá öðrum en honum sjálfum.

Lögmannafélag Ísland gerir að sama skapi athugasemdir við frumvarpið. Þar kveður við sama tón og áhyggjum lýst af öryggi persónuupplýsinga. Í umsögninni segir að „frumvarpið kveður á um víðfeðma söfnun persónuupplýsinga. Sem slíkt kallar 
frumvarpið á nákvæma skoðun á samþýðanleika þess og samræmi þess við ýmis ákvæði 
gildandi löggjafar sem vernda friðhelgi einkalífs [...]. Í þessum efnum er vert að hafa í huga, að niðurstaða um heimild til upplýsingasöfnunar sem þessarar getur ráðist af þeim ráðstöfunum sem gerðar eru samhliða í lögum til að tryggja réttaröryggi þeirra sem upplýsingarnar lúta að. Af frumvarpinu verður hins vegar ekki ráðið hvort grípa skuli til einhverra sérstakra ráðstafana í þessu skyni.“

Allsherjar- og menntamálanefnd tekur á morgun á móti fleiri umsagnaraðilum.

Frétt mbl.is: Dulkóðaðar kennitölur duga ekki til

Frétt mbl.is: Í raun verið að afnema bankaleynd

Frétt mbl.is: Langt gengið í afnámi trúnaðarskyldu

Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins
Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins
Pétur H. Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins
Pétur H. Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins Eggert Jóhannesson
Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata
Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata
Páll Valur Björnsson, þingmaður Bjartar Framtíðar
Páll Valur Björnsson, þingmaður Bjartar Framtíðar
Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins
Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins
Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar
Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins Kristinn Ingvarsson
Sigríður Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins
Sigríður Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert