Samstarf óháð afstöðunni til ESB

„Það væri okkur mikil ánægja að geta boðið Ísland velkomið sem hluta af Evrópusambandinu. En hitt er líka ljóst: Á hvern veginn sem ákvörðun nýrrar ríkisstjórnar lands yðar fellur munum við halda áfram uppbyggilegu samstarfi við Ísland, hvort sem það verður undir formerkjum aðildar að Evrópusambandinu eða sem áframhaldandi samstarf innan núverandi ramma evrópska efnahagssvæðisins.“

Þetta sagði Joachim Gauck, forseti Þýskalands, í borðræðu í tilefni af opinberum hátíðarkvöldverði til heiðurs Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, Dorriti Moussaieff, forsetafrú í þýsku forsetahöllinni í gær. Gauck sagði forsetann vita að Þýskaland hefði frá upphafi stutt aðild Íslands að Evrópusambandinu af fullum þunga og að sambandsþing landsins hefði undirstrikað það með þingsályktun sinni. Þjóðverjar vissu hins vegar að Íslendingar væru klofnir í afstöðu sinni til aðildar að sambandinu og að framundan væri að taka ákvörðun um framhald viðræðnanna.

„Þessu gleyma íbúar Þýskalands aldrei“

Gauck nefndi einnig Norðurslóðirnar og sagði Þjóðverjar áhugasama um samstarf við Íslendinga á því sviði. Sömuleiðis góða frammistöðu Íslands þegar kæmi að jafnréttismálum og hárri fæðingartíðni miðað við önnur Evrópuríki. Þá ræddi hann um að Íslendingar hafi fundið leið út úr kreppunni í kjölfar bankahrunsins „með djörfum björgunaraðgerðum og nýtur fyrir það alþjóðlegrar viðurkenningar og á mikla virðingu okkar skilið fyrir þær sakir.“

Ræða Gaucks fjallaði að öðru leyti einkum um náið samband Íslands og Þýskalands í gegnum aldirnar allt frá því er Adalbert biskup í Bremen í Þýskalandi vígði Ísleif Gissurarson sem fyrsta íslenska biskupinn og fram á þennan dag. Í gegnum hansakaupmennina, siðaskiptin, áhuga þýskra menntamanna og tónskálda á Íslandi og íslenskri menningu á 19. öld og menningu nútímans og straum þýskra ferðamanna til Íslands.

Hann sagðist einnig vilja minnast þess „með hlýhug hvernig Íslendingar hjálpuðu okkur á erfiðleikatímum. Að stríðinu loknu, þegar Þýskaland lá í rústum og ösku, sendu Íslendingar okkur af rausnarskap fisk og lýsi. Rausnarskapur og hjálpsemi Íslendinga þegar hungur og hörgulsjúkdómar surfu að björguðu mörgum jafnöldrum mínum í Þýskalandi. Þessu gleyma íbúar Þýskalands aldrei.“

Norðurslóðirnar nýr samstarfsvettvangur

Ólafur Ragnar fjallaði af þessu tilefni að sama skapi um margþætt tengsl Íslands og Þýskalands í gegnum aldirnar. Bæði menningarlega, viðskiptalega og stjórnmálalega. Þá gerði hann einnig að umtalsefni Norðurslóðirnar og sagði að með aukinni áherslu á þær væri Norðurskautsráðið orðinn nýr vettvangur fyrir tengsl landanna á sviði vísinda, rannsókna og viðskipta.

„Norðurslóðir, loftslagsbreytingar, sjálfbær orka eru meðal helstu dagskrárefna hinnar nýju aldar og í þeim efnum bíður okkar, Þjóðverja og Íslendinga, fjöldi ögrandi viðfangsefna; ríkuleg tækifæri en líka vísbendingar um siðferðilegar skyldur sem við berum öll gagnvart komandi kynslóðum og jörðinni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert