Forseti þýska sambandsþingsins, Norbert Lammert, telur margt benda til þess að Evrópusambandið eigi eftir að skiptast í tvennt í framtíðinni þar sem hluti ríkjanna sem mynda sambandið í dag haldi áfram að auka samstarf sín á milli án þátttöku hinna ríkjanna.
Þetta er haft eftir Lammert á heimasíðu íslenska forsetaembættisins þar sem fjallað er um fund Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, með þýska þingforsetanum sem fram fór í gær en Ólafur er nú í opinberri heimsókn í Þýskalandi í boði Joachims Gauck, forseta landsins.
Ennfremur kemur fram að á fundinum hafi Ólafur og Lammert rætt um margþætt og traust tengsl landanna, mikilvægi norðurslóða sem og hvernig tækniþekking Íslendinga við nýtingu jarðhita getur nýst víða í Evrópu.
Fundinn sat einnig Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra, sem og embættismenn frá utanríkisráðuneytinu, og gerði hann grein fyrir afstöðu nýrrar ríkisstjórnar til viðræðna um inngöngu í Evrópusambandið. Fram kemur að Lammert hafi lýst skilningi á þeirri afstöðu ríkisstjórnarinnar.
Frétt á heimasíðu forsetaembættisins