„Það á enginn að vinna frítt á einhverju æfingatímabili. Það er algjörlega óheimilt samkvæmt kjarasamningum,“ segir Sigurður Bessason, formaður stéttarfélagsins Eflingar, varðandi svokallaða launalausa prufutíma sem tíðkast hjá sumum veitingahúsum. „Þú ert aldrei ráðinn í prufu. Annaðhvort ertu ráðinn til vinnu eða ekki og það er enginn afsláttur veittur af því,“ segir Sigurður. „Við hvetjum ungmenni sem hafa lent í slíku að leita til okkar til að gæta réttar síns,“ segir hann í umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag.
„Þau buðu mér að vinna í heilan dag í ólaunaðri prufu,“ segir ónefndur sumarstarfsmaður á veitingahúsi í miðborginni. „Í framhaldinu bauðst mér að vinna í þrjá til fjóra daga í launaðri prufu þar sem fyrsti prufudagurinn gekk vel,“ segir starfsmaðurinn og bætir við að margir kollegar sínir séu í sömu stöðu.
„Fjölgun mála er í beinu hlutfalli við mikla fjölgun veitingastaða á síðustu árum,“ segir Harpa Ólafsdóttir, forstöðumaður kjaramálasviðs hjá Eflingu. Í dag eru um 20% félagsmanna stéttarfélagsins starfsmenn veitingahúsa en þetta hlutfall var 10% árið 2007. „Það eru hlutfallslega miklu fleiri sem leita til okkar vegna launamála í þessari stétt en í öðrum starfsgreinum,“ segir Harpa en um 50% þeirra sem leita til stéttarfélagsins vegna launakrafna eru starfsmenn veitingastaða.
„Það reynir á ungmennin sjálf að standa með sjálfum sér þegar svona kemur upp. Svona vinnubrögð atvinnurekenda eru óviðunandi og eiga ekki að viðgangast,“ segir Harpa.
Samkvæmt kjarasamningum er enginn uppsagnarfrestur fyrstu tvær vikur í starfi og ef ekki verður af áframhaldandi ráðningu ber engu að síður að greiða laun fyrir unninn tíma samkvæmt ráðningarsamningi.