Engin formleg eftirgrennslan hafin

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra.
Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra. mbl.is/Eggert

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra segir að hjá íslenskum stjórnvöldum sé engin formleg eftirgrennslan hafin í tengslum við meint eftirlit bandarískra og breskra stjórnvalda með íslenskum borgurum. „Íslensk stjórnvöld taka þessa umræðu alvarlega.“

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, hóf sérstaka umræðu um málið á Alþingi í dag. Hún sagði að enn hefðu ekki komið fram neinar yfirlýsingar frá íslenskum stjórnvöldum í tengslum við leka þá sem bandaríski uppljóstrarinn Edward Snowden bæri ábyrgð á að hefðu komið fyrir sjónir almennings.

„Í því ljósi langar mig að spyrja hæstvirtan innanríkisráðherra hver hennar afstaða sé gagnvart þeim möguleika að um íslenska borgara hafi verið njósnað. Hefur ráðherrann sent bandarískum og breskum yfirvöldum fyrirspurn um hvort fylgst hafi verið með íslendingum á sama hátt og fylgst hefur verið með öðrum borgurum í Evrópu? Hefur ráðherrann hæstvirtur farið fram á svör við því hvort að íslendingar séu líka fórnarlömb NSA prógrammsins og starfháttum bresku njósnastofnunarinnar GCHQ ? Ef svarið er nei þá spyr ég hvort ráðherrann telji ekki nauðsynlegt að fá fram þessar upplýsingar? Þögn og andvaraleysi íslenskra yfirvalda er yfirþyrmandi ef hafður er í huga alvarleiki málsins,“ sagði Birgitta.

Íslensk stjórnvöld fylgjast með umræðunni

Hanna Birna sagði að fréttir af uppljóstrunum Snowdens hefðu hvorki verið ítarlegar né nákvæmar. Heldur fremur fjölluðu þær um það hvaða tækni væri til staðar og hvernig hugsanlegt væri að nýta hana.

Hún sagði að nokkrar Evrópuþjóðir, þar með talin framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, hefði óskað skýrra svara frá breskum og bandarískum yfirvöldum „um þessar óstaðfestu fréttir þess efnis að njósnastofnanir þeirra hleri ljósleiðara sem flytja símtöl og netsamskipti,“ sagði ráðherra.

„Að sjálfsögðu fylgjast íslensk stjórnvöld með þessari umræðu og munu gera svo áfram. Það eru íslenskir hagsmunir að netnotendur geti treyst því að meginreglur íslenskra laga um frelsi, mannréttindi og persónuvernd sé fylgt. Verði til rökstuddur grunur um að svo sé ekki verður að sjálfsögðu leitað skýringa á því,“ sagði Hanna Birna.

„Það er engin formleg eftirgrennslan, formlega athugun eða rannsókn hafin. En íslensk stjórnvöld munu í kjölfar þeirra svara, sem frá Bandaríkjunum og Bretum berast við þessum ásökunum, og munu berast Evrópusambandinu og öðrum þjóðum, þá munu íslensk stjórnvöld ákveða hvort ástæða sé til að skoða málið sérstaklega með hliðsjón af hagsmunum Íslendinga,“ sagði hún og bætti við að óskað yrði eftir nánari útskýringu frá viðkomandi ríki.

Vilja efla net- og upplýsingaöryggi

Hanna Birna sagði ennfremur, að netöryggissveit Póst- og fjarskiptastofnunar ásamt Ríkislögreglustjóra og Persónuvernd, fylgist að jafnaði með því að persónuvernd og netöryggi sé sem best tryggt á Íslandi. Ákveðið öryggisnet væri nú þegar til staðar.

„Áður en þetta tiltekna uppljóstrunarmál kom upp hafði verið lagður grunnur að skipan samráðshóps innan stjórnkerfisins um eflingu netöryggis,“ sagði Hanna Birna og bætti við að hópnum sé ætlað það verk að vinna að bættu net- og upplýsingaöryggi. Stefnt sé að því að hópurinn taki til starfa í lok sumars

Birgitta sagði að málið væri ekki einkamál bandarískra né breskra yfirvalda, þetta varði öll heimsins lönd og það fólk sem treystir á yfirvöld til að vernda grundvallarmannréttindi sín.

Hún spurði m.a. hvaða hvaða lög verndi rétt almennings á Íslandi gegn eftirliti erlendra yfirvalda og hvert geti fólk leitað sem telur að á sér hafi verið brotið.

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, var málshefjandi.
Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, var málshefjandi. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert