Skotmótið Hreindýrahreysti fór fram í gærkvöldi á skotsvæði Skotfélags Austurlands á Þuríðarstöðum við Egilsstaði. Eina konan sem keppti í mótinu, Guðný Gréta Eyþórsdóttir, bóndi í Fossárdal, skaut körlunum heldur betur ref fyrir rass, í orðsins fyllstu merkingu og sigraði með yfirburðum.
Keppendur í mótinu voru tíu talsins. Mótið var byggt upp af þrautabraut þar sem skotið var 10 skotum á uppblásnar blöðrur á tíu mismunandi færum, frá 65 metrum upp í 290 metra, á tíma.
Var skotið tveimur skotum fríhendis, tveimur af hné og sex liggjandi og þurftu keppendur fjórum sinnum að skíðra u.þ.b. 30 metra undir bönd. Skotin skiptust þannig að fyrst var skotið einu skoti, síðan tveimur, þá þremur og loks fjórum og hlaupnir 50 metrar og skriðið undir böndin eftir hverja lotu sem og í upphafi. Þrautabrautin endaði síðan á að dregið var ígildi hreindýrskýr á töfrateppi í mark.
Eins og áður sagði sigraði Guðný Gréta með yfirburðum en hún hitti sex blöðrur af tíu. Þá var hún eini keppandinn sem hitti í blöðru af lengsta færinu, 290 metrum.
Í öðru sæti varð Sigurður Aðalsteinsson og í þriðja sæti Kjartan Ottó Hjartarson en þeir hittu fimm blöðrur af tíu.