„Mér er nóg boðið“

Katrín Júlíusdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi ráðherra.
Katrín Júlíusdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi ráðherra. mbl.is/Eggert

„Mér er eiginlega nóg boðið. Þess vegna kem ég hingað upp til að verja minn maka. Það að þingmenn skuli koma hér og fara í maka annarra þingmanna er hreinlega fyrir neðan allar hellur, sérstaklega þar sem þeir hafa lítil tök á því að verja sig fyrir slíkum loftárásum,“sagði Katrín Júlíusdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, á Alþingi í dag.

Katrín gerði athugasemdir við ummæli sem Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, lét falla á beinni línu hjá DV í gær. Þar var Vigdís spurð út í listamannalaun, þ.e. hvort það væri ekki réttast að skera þau niður.

Vigdís sagði það stefnu Framsóknarflokkins að afnema skuli listamannalaun í þeirri mynd sem þau séu. Í staðinn ætti að velja og styrkja unga efnilega listamenn. Hún sagði að listamannalaunin hefðu farið út í vitleysu á síðasta kjörtímabili „og ég fullyrði að hefðu ráðherrar Framsóknarmanna farið fyrir því að láta maka tveggja ráðherra á listamannalaun - þá hefði allt orðið vitlaust - og hrópað að viðkomandi ráðherrar yrðu að segja af sér - en þar sem þetta voru Samfylkingamakar - var málið þaggað niður og ekki rætt,“ sagði Vigdís á DV.

„Ég held að hver og einn þingmaður hérna inni ætti að hugsa um það ef hér er verið að byrja einhverskonar nýjar aðferðir sem snúast um það að þingmenn fari hér í maka annarra þingmanna út af mögulegum og ómögulegum málum,“ sagði Katrín á Alþingi í dag.

„Mér finnst vont að sitja undir þessu vegna þess að minn maður [Bjarni Bjarnason rithöfundur] var búinn að vera rithöfundur lengi áður en við kynntumst. Hann var búinn að fá starfslaun úr listamannasjóði frá 1996 - við kynntumst 14 árum síðar. Hann hefur fengið minna eftir að við kynntumst ef eitthvað er og geri ég ráð fyrir því að það sé á faglegum forsendum,“ sagði hún.

„Ég kom hvergi nálægt einu eða neinu hvað varðar úthlutun til míns manns úr starfssjóði listmannalauna eftir að við kynntumst. Ég óska eftir því að hæstvirtur forseti hlutist til um það að verja maka þingmanna fyrri slíkum árásum með því að hlutast til um að rannsókn verði hreinlega gerð á þessum máli þannig að mannorð þeirra verði hreinsað.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert