Föður mismunað í Landsbankanum

Landsbankinn krefur mann um faðernisvottorð, en móðirin þurfti ekki að …
Landsbankinn krefur mann um faðernisvottorð, en móðirin þurfti ekki að sýna nein gögn. Kristinn Ingvarsson

„Ég sem faðir og forsjáraðili dóttur minnar á ekki að þurfa leggja fram einhver önnur gögn heldur en móðir hennar,“ segir maður sem komst að því nýlega að hann væri ekki prókúruhafi af reikningi fjórtán ára dóttur sinnar í Landsbankanum. Hann og móðir stelpunnar fara með sameiginlegt fullt forræði og á milli þeirra eru mjög gott samband.

Maðurinn var krafinn um faðernisvottorð frá sýslumanni sem og vottorð um að hann fari með forræði dóttur sinnar svo hann gæti fengið prókúru aftur, móðirin þurfti ekki að sýna fram á móðerni sitt með sama hætti. Maðurinn segir þetta bæði niðurlægjandi og móðgandi, en hann hefur rætt við lögfræðinga sem segja málið fráleitt.

„Ég var með prókúru hjá börnunum mínum og skildi því ekkert í því þegar mér var sagt annað. Ég fæ þau svör að þegar við slitum samvistum þá hafi það gerst að ég hafi ekki verið lengur prókúruhafi, ég bið bankann um að leiðrétta það en þá segir bankinn mér að þó ég hafi fullt forræði yfir dóttur minni til jafns við móðurina, skipti það engu máli þar sem dóttir mín hefur lögheimili hjá móður sinni,“ segir maðurinn og benti hann bankanum á að enginn gæti haft lögheimili á tveimur stöðum. Þá hefur móðirin einnig staðfest sameiginlega forræðið við bankann, en bankinn lætur það ekki duga.

Misjafnt viðmót bankastarfsmanna

„Ég ætla ekki að leggja fram þessi gögn nema hver einasti viðskiptavinur bankans verði krafinn um sömu gögn. Það er ekki hægt að mismuna viðskiptavinum eftir því hvort þeir eru karlmenn eða kvenmenn. Eitt verður að ganga yfir alla,“ segir maðurinn sem segist hafa fengið ýmiskonar móttökur í bankanum. „Ein konan sagði að þetta væri nöldur í körlum, allt það samtal einkenndist af karlhatri. Síðar ræddi ég við mann sem tók mér mjög vel og tók undir með mér að þetta væri niðurlægjandi og ætti ekki að viðgangast.“

Maðurinn segist vera langþreyttur á svona viðmóti, einungis því hann er faðirinn en ekki móðirin. „Ég hef mætt svona viðmóti áður í grunnskóla dóttur minnar. Þar kom upp hegðunarvandamál og ég kom til að ræða við skólastjórann. Hún sagði við mig að sér þætti þægilegra að eiga samskipti við mæðurnar um svona mál og vildi helst ekki ræða það við mig, það skipti hana engu þó við værum með sameiginlegt fullt forræði yfir dóttur okkar.“

Maðurinn bíður eftir svörum frá bankanum og hefur ítrekað að ekki megi mismuna þegnum á grundvelli kynferðis skv. stjórnarskrá eins og hann telur hafa verið gert í þessu tilviki.

„Afhverju þarf ég ekki að koma með vottorð?“

Fyrrverandi eiginkona mannsins og móðir stelpunnar tekur undir með honum. „Við vorum saman þegar barnið fæddist og þegar reikningar dóttur okkar voru stofnaðir. Þá vorum við bæði með prókúru og það átti aldrei að breytast,“ segir móðirin sem finnst bankinn vera að gera fólki erfitt fyrir sem slitið hefur samvistum. „Barnið á alltaf sína tvo foreldra og í þessu tilviki hentar bara betur að hún hafi lögheimili hjá mér.“

„Þó að dóttir okkar búi hjá mér segir það ekkert um það hvort ég sé betri til þess að sinna hennar fjárráðum. Hann gæti verið mun betur til þess fallinn,“ segir móðirin sem ítrekar að það eigi jafnt að ganga yfir alla. „Ef hann þarf að koma með vottorð, afhverju þarf ég ekki að gera það?“

Bankinn styðst við skráð lögheimili

Landsbankinn vildi ekki tjá sig um þetta einstaka mál, en svipuð mál hafa líklega komið upp áður. Kolbrún Guðlaugsdóttir fjárfestatengill á skrifstofu bankastjóra segir starfsmenn bankans skilja vel að það geti valdið óánægju viðskiptavina hvernig málum varðandi aðgang að upplýsingum um reikninga ólögráða barna er háttað.

„Meginreglan er sú að stuðst er við upplýsingar úr þjóðskrá en bankar hafa ekki aðgang að gögnum frá sýslumanni en hjá því embætti eru varðveitt gögn er lúta að forræði ólögráða barna. Einungis er mögulegt að vera með skráð lögheimili á einum stað og er því ekki unnt að sannreyna forráðamenn nema óska sérstaklega eftir viðkomandi gögnum frá sýslumanni. Sama regla gildir hvort heldur um er að ræða ólögráða barn með skráð lögheimili hjá móður eða föður,“ segir Kolbrún Guðlaugsdóttir hjá Landsbankanum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka