„Það er ekkert nýtt fyrir Evrópusambandinu að ríki sæki um aðild að því þrátt fyrir að ekki sé einhlít afstaða innan ríkisstjórnar þeirra til þess hvort ganga eigi í sambandið eða ekki. Það eru mörg dæmi um ríki sem sótt hafa um aðild þó einstakir ráðherrar eða jafnvel stjórnmálaflokkar hafa verið andvígir henni. Það er vitanlega lýðræðislegur réttur hvers ríkis að sækja um aðild jafnvel þó skoðanir séu skiptar innan ríkisstjórnarinnar.“
Þetta sagði Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, á fundi sameiginlegrar þingmannanefndar Alþingis og Evrópuþingsins vegna umsóknar Íslands um inngöngu í Evrópusambandið sem fram fór í dag. Hann lagði áherslu á að staðið hefði verið með eðlilegum hætti að umsókninni þegar henni var komið á framfæri í júlí 2009 og hún hefði notið fulls lýðræðislegs umboðs. Þá hefðu ekki aðeins þáverandi stjórnarflokkar samþykkt að sótt yrði um inngöngu í Evrópusambandið heldur þingmenn úr öllum flokkum sem þá hafi átt sæti á Alþingi.
Stefna ríkisstjórnarinnar óljós
Árni Páll sagði stefnu nýrrar ríkisstjórnar gagnvart umsóknin um inngöngu í Evrópusambandið vera óljósa. Til stæði að gera skýrslu um stöðu umsóknarinnar og stöðunnar innan sambandsins en ekki lægi fyrir með hvað hætti yrði staðið að gerð hennar. Hvort þar yrði um hlutdræga nálgun að ræða eða hlutlausa. Þá flækti það stöðuna að ríkisstjórnin hefði ekki fellt úr gildi þingsályktunina frá árinu 2009 sem heimilaði að sótt yrði um inngöngu í Evrópusambandið og væri því enn bundin af henni.
Hann lagði að lokum áherslu á að meirihluti Íslendinga vildi enn klára viðræðurnar við Evrópusambandið samkvæmt ítrekuðum skoðanakönnunum undanfarin ár. Ríkisstjórnin hefði reynt að gera lítið úr þeirri afstöðu að vilja sjá hvað væri í boði af hálfu sambandsins en það væri eftir sem áður lögmætt sjónarmið. Jafnvel þó meirihluti Íslendinga vildi ekki ganga í Evrópusambandið samkvæmt skoðanakönnunum vildi meirihlutinn engu að síður ljúka viðræðunum, sjá útkomuna og kjósa um hana.
Misvísandi afstaða til umsóknarinnar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, svaraði Árna Páli og benti á að skoðanakannanir um afstöðuna til umsóknarinnar um inngöngu í Evrópusambandið hefðu ýmist sýnt meirihluta fyrir því að halda málinu áfram eða hætta því. Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Framsóknarflokksins og varaformaður utanríkismálanefndar Alþingis, tók í sama streng.
„Það er rétt sem kom fram hjá forsætisráðherra áðan að skoðanakannanir hafa verið nokkuð breytilegar um það hvort vilji sé fyrir því að halda áfram aðildarviðræðum. Þær hafa verið að detta sitthvoru megin. Stundum er meirihluti fyrir því að halda þeim áfram, stundum er ekki meirihluti fyrir því að halda þeim áfram. En það er hins vegar mjög sterk andstaða við það á meðal íslensku þjóðarinnar að ganga í Evrópusambandið.“