Stöðuskýrslunni breytt vegna kosninganna

Frá fundinum í morgun. Cristian Dan Preda, Evrópuþingmaður, fyrir miðju.
Frá fundinum í morgun. Cristian Dan Preda, Evrópuþingmaður, fyrir miðju. mbl.is/Styrmir Kári

„Það er deginum ljósara að nýja ríkisstjórnin vill ekki halda viðræðunum áfram án þess að áður fari fram þjóðaratkvæðagreiðsla. Ekki liggur fyrir að hverju verði spurt eða hvenær slíkt þjóðaratkvæði kann að fara fram en svo virðist sem ekki sé rétt að gera ráð fyrir að það fari fram í nánustu framtíð.“

Þetta sagði Cristian Dan Preda, þingmaður á Evrópuþinginu og fulltrúi þingsins gagnvart umsókn Íslands um inngöngu í Evrópusambandsins, á fundi sameiginlegrar þingmannanefndar Alþingis og Evrópuþingsins í morgun. Hann vakti athygli fundarmanna á því að ekki hefði verið samþykkt stöðuskýrsla vegna umsóknarinnar af hálfu Evrópuþingsins fyrr á þessu ári líkt og árin á undan. Þingmaðurinn sagði að ástæðan fyrir þessu væri ekki sú að stöðuskýrslan lægi ekki fyrir heldur sú að ákveðið hefði verið að bíða með endanlega afgreiðslu hennar fram yfir þingkosningarnar á Íslandi og sjá hvaða áhrif þær hefðu á umsókn Íslands.

Vonbrigði með ákvörðun ríkisstjórnarinnar

Preda sagði að vegna þess breytta pólitíska landslags sem lægi fyrir hér á landi eftir kosningarnar ætlaði hann að leggja það til að núverandi texta skýrslunnar yrði skipt út fyrir mun styttri texta sem taki mið af nýjustu þróun mála. Þar verði lögð áhersla á að Evrópusambandið telji Ísland tilvalið umsóknarríki og sambandið sé áfram reiðubúið að halda áfram og ljúka viðræðuferlinu. Lýst verði vonbrigðum með að ríkisstjórnin ætli ekki að ljúka viðræðunum og vonað að þjóðaratkvæði um málið fari fram innan fyrirsjáanlegs tímaramma. Hann sagði að breytt stöðuskýrsla yrði tekin fyrir á fundi utanríkismálanefndar Evrópuþingsins 9. júlí næstkomandi.

Þingmaðurinn beindi síðan orðum sínum að Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, forsætisráðherra, sem sat fundinn, og sagði að í ljósi hreinskilni hans varðandi umsóknina um inngöngu í Evrópusambandið yrði hann að sætta sig við að aðrir væru hreinskilnir líka. Vitnaði hann þvínæst í þjóðhátíðarræðu Sigmundar þar sem forsætisráðherra sagði meðal annars að Evrópusambandið þyrfti að sanna sig fyrir Íslendingum. „Ég vil bæta því við að Evrópusambandið þurfi að sanna sig fyrir öllum Evrópubúum. Það er viðvarandi áskorun sem við í Evrópuþinginu erum að bregðast við með ýmsum ráðum,“ sagði hann. En Íslendingar þyrftu líka að sanna sig fyrir Evrópusambandinu enda virkaði slíkt í báðar áttir.

ESB dæmt eftir gerðum sínum eins og aðrir

Sigmundur svaraði Preda og sagði að það segði sig sjálft að ef ríki ætlaði að ganga í sambandið yrði það að sanna sig fyrir því með því að sýna fram á að það væri reiðubúið til þess og að gangast undir löggjöf þess. Það sem hann hefði hins vegar átt við væri hvernig Evrópusambandið hefði haldið á málum gagnvart Íslandi til dæmis í Icesave-málinu og fiskveiðideilum. Íslendingar hefðu verið ósáttir við aðkomu sambandsins að Icesave-málinu og ef gripið yrði til refsiaðgerða gegn Íslandi vegna fiskveiðideilna yrði það ekki til þess að bæta stöðuna. Það ætti við um Evrópusambandið eins og aðra að það væri dæmt eftir gerðum sínum en ekki því sem það segðist standa fyrir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert