Fjögurra ára stúlka féll úr rúllustiga í versluninni Intersport á Bíldshöfða. Að sögn yfirmanns fasteignarinnar fór betur en á horfðist og stúlkan var útskrifuð af spítala undir morgun. Hlaut hún engin beinbrot þrátt fyrir að hafa fallið rúmlega þrjá metra.
Að sögn Steins Jóhannssonar, yfirmanns fasteignarinnar, hlaut stúlkan ekki beinbrot en marðist illa. Hún hafi verið með meðvitund og sjúkraliðar hafi komið á staðinn 2-3 mínútum eftir að atvikið átti sér stað. Var hún flutt á bráðadeild Landspítalans þar sem hún dvaldi í nótt. Hún fékk að fara heim í morgun.
Steinn Jóhannsson segir að umræddur stigi hafi verið tekinn út af vinnueftirlitinu í febrúar og staðist allar kröfur. Engu að síður hélt Steinn fund með Vinnueftirlitinu í hádeginu til að fara yfir öryggiskröfur. Hann segir að þrátt fyrir að stiginn standist allar öryggiskröfur verði reynt eftir fremsta megni að grípa til frekari aðgerða til þess að koma í veg fyrir að slíkt atvik gerist aftur. „Við ætlum að fara lengra en öryggiskröfur og Vinnueftirlitið segja til um og erum að smíða búnað til þess að koma í veg fyrir að svona gerist aftur,“ segir Steinn.
Atvikið náðist á öryggismyndavél og Steinn telur mikilvægt að læra af því svo slíkt komi ekki upp aftur og hvetur aðra til að íhuga sín öryggismál þegar kemur að rúllustigum. Hann ítreka einnig að reglur séu um að börn eigi ekki að leika sér í rúllustigum.