6 ára dómur fyrir fíkniefnasmygl

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt Símon Pál Jónsson í 6 ára fangelsi  í stórfelldu fíkniefnamáli. Sjö voru ákærðir, fimm Íslendingar og tveir Litháar.

Auk hans voru Jónas Fannar Valdimarsson, Jón Baldur Valdimarsson og Dainius Kvedaras dæmdir í 3 ára og 6 mánaða fangelsi óskilorðsbundið. Þá var Svavar Friðrik Smárason dæmdur í 12 mánaða fangelsi, en 9 mánuðir refsingarinnar voru skilorðsbundnir. Arnar Finnur Arnarson var dæmdur í 10 mánaða skilorðsbundið fangelsi. Darius Kochanas var sýknaður af öllum ákærum. Þá var Jón Baldur sviptur ökuréttindum í 14 mánuði.

Þeir Jónas Fannar, Jón Baldur og Símon Páll voru ákærðir fyrir að flytja 19 kíló af amfetamíni til landsins frá Kaupmannahöfn með tveimur póstsendingum í janúar sl. Þremenningarnir voru svo ásamt þeim Svavari Friðriki og Arnari kærðir fyrir að hafa lagt á ráðin um innflutninginn en því höfnuðu þeir allir við aðalmeðferð málsins þótt þeir játuðu mismikla aðild að innflutningnum.

Saksóknari gaf það ekki skýrt upp við aðalmeðferð málsins fyrr í þessum mánuði hvað ákæruvaldið teldi hæfilega refsingu vegna innflutningsins. Hann vísaði í Papeyjarmálið þar sem sakborningar hlutu 9-10 ára fangelsi. Það sagði saksóknari efri mörk en svo væru einnig vægari dómar, 4-6 ára fangelsi. Af því að dæma krefst ákæruvaldið 4-10 ára fangelsis vegna brotsins.

Þá voru Litháarnir Kochanas og Kvedaras ákærðir fyrir að flytja inn 1.700 ml af amfetamínbasavökva. Saksóknari í málinu krafðist þess að þeir yrðu dæmdir í fjögurra ára fangelsi fyrir innflutninginn, en vökvinn var sendur með pósti til landsins í janúar síðastliðnum. Þeir kröfðust báðir sýknu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert