Ban Ki-moon heldur fyrirlestur í HÍ

Ban Ki-moon.
Ban Ki-moon.

Ban Ki-moon, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, heldur opinn fyrirlestur í Hátíðasal Háskóla Íslands, þriðjudaginn 2. júlí kl. 15.00. Fyrirlesturinn ber yfirskriftina Ísland og Sameinuðu þjóðirnar: Sjálfbær framtíð fyrir alla.

 Í fyrirlestrinum fjallar Ban Ki-moon um baráttuna gegn fátækt og hlutverk Sameinuðu þjóðanna við að stuðla að alþjóðafriði og öryggi.

 Ban Ki-moon hefur verið aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna frá 1. janúar 2007. Hann er fæddur í Suður-Kóreu 13. júní 1944. Ban Ki-moon er með BA-gráðu í alþjóðasamskiptum frá Seoul-háskóla og meistaragráðu í stjórnsýslufræðum frá Kennedy stjórnsýsluskólanum við Harvard-háskóla. Hann starfaði í suður-kóresku utanríkisþjónustunni í 37 ár, síðustu þrjú árin sem ráðherra utanríkismála og utanríkisviðskipta.

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra flytur ávarp. Fundarstjóri verður Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands. Viðburðurinn er haldinn á vegum Háskóla Íslands, utanríkisráðuneytisins og Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og fer fram á ensku.

Ban Ki-moon er áttundi aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna frá stofnun þeirra árið 1945. Hann hefur lagt áherslu á að virkja leiðtoga heimsins í að takast á við áskoranir sem mannkynið stendur frammi fyrir og snúa að loftslagsbreytingum, efnahagsmálum, heilbrigði, fátækt og fæðuöryggi.  Hann hefur leitast við að byggja brýr milli þjóða og vera talsmaður þeirra sem minnst mega sín. Þá hefur Ban Ki-moon lagt sig fram um að styrkja Sameinuðu þjóðirnar sjálfar í sessi sem stofnun.

Ban Ki-moon heimsækir Ísland dagana 2. og 3. júlí í boði utanríkisráðherra.

Þess má geta að Kofi Annan, forveri Ban Ki-moon í embætti aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna og friðarverðlaunahafi Nóbels, var aðalfyrirlesari á hátíðarmálþingi Háskóla Íslands í tilefni aldarafmælis skólans þann 7. október 2011. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert