Breytingar stuðla ekki að jafnrétti

Steinunn Rögnvaldsdóttir er talskona Femínistafélags Íslands.
Steinunn Rögnvaldsdóttir er talskona Femínistafélags Íslands. mbl.is/Kristinn

Femínistafélag Íslands gerir athugasemd við lagafrumvarp félags- og húsnæðismálaráðherra um breytingar á lögum um almannatryggingar. Félagið telur þær leiðir sem eru farnar til að bæta kjör lífeyrisþega ekki endurspegla markmið um jafnrétti kynjanna á Íslandi.

Í tilkynningu frá Femínistafélaginu segir að nýlegar rannsóknir bendi á að staða kvenkyns ellilífeyrisþega sé verri en karlkyns ellilífeyrisþega. Mismuninn eigi rætur að rekja til ólaunaðra umönnunar- og heimilisstarfa kvenna síðustu áratugi. Ljóst sé að með því að taka að sér ólaunuð störf á heimilum og innan fjölskyldna, hafi konur skapað svigrúm fyrir karla til að vinna meiri launavinnu í gegnum tíðina. Af þessum sökum hafi konur greitt minna í lífeyrissjóði en karlar síðustu áratugina og fái þær að meðaltali innan við helming þeirrar upphæðar sem karlar fá greidad í lífeyrisgreiðslur frá lífeyrissjóðum sínum.

Í umsögn fjármálaráðuneytisins um frumvarpið um breytingar á lögum um almannatryggingar segir að breytingar frumvarpsins hafi einkum áhrif á þá lífeyrisþega sem hafa einhverjar aðrar tekjur til viðbótar við bætur almannatrygginga og er áætlaður ávinningur af breyttum bótaréttindum meiri eftir því sem tekjur lífeyrisþega eru hærri. Á hinn bóginn munu lífeyrisþegar sem hafa hvað lægstu kjörin hafa lítinn ávinning af breytingum frumvarpsins. Segir orðrétt: „Áætlað er að heildartekjur ellilífeyrisþega, sem nú þegar fá greiðslur úr almannatryggingakerfinu, verði rúmlega 3 þús.kr. hærri að meðaltali á mánuði fyrir karla en rúmlega 2 þús.kr. hærri fyrir konur miðað við bein áhrif af breytingum sem kveðið er á um í frumvarpinu“.

Femínistafélagið segir það ótrúlegt að í athugasemdum við frumvarpið segi: „Ekki verður séð að frumvarpið hafi bein áhrif á jafnrétti kynjanna.“Femínistafélagið hafni þeirri staðhæfingu og vilji hvetja frumvarpshöfunda til að kafa dýpra þegar kemur að því að meta áhrif lagasetningar á jafnrétti kynjanna.

„Femínistafélagið vill ennfremur hvetja til þess að skipt verði um kúrs í aðgerðum til að bæta kjör lífeyrisþega og að forgangsraðað verði í þágu jafnréttis með því að bæta stöðu þeirra sem hallast standa í kerfinu. Hækkun á grunnlífeyri myndi stuðla að auknu jafnrétti eldri kvenna og karla, en einnig koma verst settu öryrkjunum best, en meirihluti öryrkja eru konur. Það er því tillaga félagsins að frumvarpinu verði breytt þannig að sett verði í forgang að hækka grunnlífeyri og tekjutryggingu lífeyrisþega.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert